Sex íslensk loðnuskip og eitt færeyskt eru nú á loðnumiðunum í mynni Breiðafjarðar norðvestur af Öndverðarnesi á Snæfellsnesi. Að sögn Gísla Runólfssonar skipstjóra á Bjarna Ólafssyni AK gengur loðnan hratt norður á bóginn en í fyrradag var hún í Faxaflóanum.

„Við komum hingað í gær og erum bara að bíða eftir því að geta hafið veiðar því við fáum ekki löndun fyrr en á miðvikudag,“ sagði Gísli í samtali við Fiskifréttir nú fyrir hádegið. Þetta er ekki óalgengt í flotanum almennt því takmörk eru fyrir því hversu mikið hægt er að taka á móti í hrognavinnslu hverju sinni.

Gísli sagði að aðalvandamálið við veiðarnar væri það að fá ekki of mikinn afla í veiðarfærin í hvert sinn. Talsvert var um það í gær að nætur rifnuðu af þeim ástæðum.