Um tuttugu loðnuskip eru nú að veiðum 15-20 mílur suðvestur úr Látrabjarginu og voru einnig í gær en það hefur verið leiðinda kvika á miðunum og veiðiskilyrði ekki upp á það besta, að því er Arnþór Pétursson stýrimaður á Hákoni EA sagði í samtali við Fiskifréttir nú í morgun.

Ætla má að hér sé komin hin langþráða vestanganga loðnunnar. Arnþór sagði að töluvert mikið af loðnu væri að sjá á svæðinu. „Það er dálítið síðan menn fóru að sjá lóð í Víkurálnum sem færst hefur hér suður eftir. Það hefur bara verið óhagstæð vindátt og kvika. Loðnan virðist koma norðan að og suður með Vestfjörðum. Bátarnir voru flestir að fá góð köst í gær, en ég veit ekki hvernig hefur gengið í morgun. Það er þungur sjór en þetta sleppur til. Veðrið á að lægja þegar líður á daginn og aldan að minnka en svo verður komin bræla aftur um hádegi á morgun,“ sagði Arnþór.