Rannsóknaskipið Árni Friðriksson hefur verið við loðnumælingar að undanförnu úti af austurströnd Grænland og er verkið tæplega hálfnað.
,,Það er loðna í Grænlandskantinum. Við höfum ekki séð mikið af ungloðnu en það er svolítið af eldri loðnu þarna,“ sagði Sveinn Sveinbjörnsson fiskifræðingur og leiðangursstjóri þegar Fiskifréttir höfðu samband við hann í gær. ,,Á því svæði sem við höfum þegar farið yfir er minna af loðnu en var í mælingu árið 2010, en við eigum eftir að mæla á gríðarlega stóru svæði og því engin leið að spá um niðurstöðu þessa leiðangurs.“
Minna má á að ungloðnumælingin síðla árs í fyrra fór að mestu forgörðum vegna verkfalls á rannsóknaskipunum og því er hún ekki samanburðarhæf við mælinguna nú.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.