Norðmenn og Rússar hafa komið sér saman um fiskkvóta í Barentshafi fyrir árið 2015. Norðmenn fá 401.240 tonn af þorski af 894 þúsund tonna heildarkvóta. Loðnukvótinn er mun hærri en búist var við. Þetta kemur fram á vef samtaka norskra útvegsmanna.
Þorskkvótinn er í samræmi við ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES). Heildarkvótinn minnkar um 99 þúsund tonn frá árinu 2014. Kvótinn skiptist á milli Noregs, Rússlands og annarra landa í samræmi við fyrirkomulag fyrri ára. Inni í kvóta Norðmanna eru 21 þúsund tonn sem ætluð eru til strandveiða og 7 þúsund tonna rannsóknakvóti.
Heildarkvótinn í ýsu er 178.500 tonn fyrir árið 2015 og er þar um óbreyttan kvóta að ræða. Í hlut Norðmanna koma 88.115 tonn.
Heildarkvótinn í loðnu á næsta ári verður 120 þúsund tonn. Þetta er aukning frá árinu í ár en þá var kvótinn 65 þúsund tonn. Fyrir skömmu birti ICES veiðiráðgjöf í loðnu þar sem lagt var til að ekki yrðu veidda meira en 6 þúsund tonn á næsta ári. Í ráðgjöf ICES var hins vegar boðið upp á valkost upp á 190 þúsund tonn þar sem ekki var hægt að kanna allt svæðið í loðnumælingum í haust vegna íss.
Heildarkvótinn í grálúðu verður áfram 19 þúsund tonn.
Norðmenn og Rússar hafa náð samkomulagi um hlutfallslega skiptingu á kvóta í djúpkarfa. Hlutdeild Norðmanna verður 72%, hlutdeild Rússa 18% og 10% verður ráðstafað til annarra landa. Heildarkvótinn í djúpkarfa verður 30 þúsund tonn á næsta ári.