Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) hefur lagt til að loðnukvóti við Ísland verði áætlaður um 450 þúsund tonn í heild á vertíðinni 2014/2015 og að upphafskvótinn verði í varúðarskyni 225 þúsund tonn.
Hér er um verulega aukningu að ræða frá síðustu vertíð en þá var loðnukvótinn í heild um 160 þúsund tonn, þar af veiddu Íslendingar um 110 þúsund tonn.
Ráðgjöf ICES byggist á rannsóknum Hafrannsóknastofnunar síðastliðið haust á ungloðnu. Í leiðangri stofnunarinnar mældust um 60 milljarðar einstaklinga af eins árs loðnu. Þessi mæling dugir til að unnt sé að áætla 450 þúsund tonna heildarkvóta á næstu vertíð og skilja jafnframt 400 þúsund tonn eftir til hrygningar. Lagt er til að upphafskvótinn verði 50% af áætluðum heildarkvóta. Endanlegur kvóti er síðan ákveðinn eftir mælingar á veiðistofni loðnu í upphafi árs 2015.
Heildarloðnukvótinn skiptist milli Íslands, Grænlands og Noregs. Á vef samtaka norskra útvegsmanna kemur fram að Norðmenn eru þegar farnir að huga að sumarveiðum á loðnu í grænlensku lögsögunni.