Hafrannsóknastofnunin hefur lagt til að leyfilegur hámarksafli á loðnuvertíðinni 2011/2012 verði ákveðinn 765 þúsund tonn, að meðtöldum þeim afla sem búið var að veiða þegar mælingar fóru fram.

,,Þetta eru bestu fréttir sem við höfum fengið lengi. Ekki er nákvæmlega ljóst hver hlutur Íslendinga verður í heildarkvótanum en mér sýnist að um 590 þúsund tonn séu ekki fjarri lagi. Til samanburðar má nefna að aflinn á síðustu vertíð var 322 þúsund tonn,” sagði Friðrik J. Arngrímsson framkvæmdastjóri LÍÚ í samtali við Fiskifréttir. Hann áætlar að útflutningsverðmæti loðnunnar gæti orðið um 30 milljarðar króna ef allt gengur eftir.

,,Reyndar er þessi niðurstaða Hafrannsóknastofnunar  svipuð þeirri spá sem stofnunin birti síðastliðið vor og var byggð á ungloðnumælingum frá því haustið áður. Þá var gert ráð fyrir 732 þúsund tonna kvóta á yfirstandandi vertíð en nú er talan 765 þúsund tonn. Eigi að síður eru þessar fréttir mikið fagnaðarefni. Þá er einnig ánægjulegt að vita að loðnan finnist á svona stóru svæði. Það kemur sér vel fyrir þorskinn og aðra stofna að hafa gott aðgengi að loðnu.”

Sjá nánar um mælingu loðnunnar á vef Hafrannsóknastofnunarinnar.