„Loðnubátarnir gátu byrjað að veiða aftur í morgun eftir síðustu brælu. Við komum á svæðið á hádegi og erum að dæla úr fyrsta kastinu. Þetta eru vonandi um 500 tonn,“ sagði Grétar Rögnvarsson skipstjóri á Jóni Kjartanssyni SU þegar Fiskifréttir slógu á þráðinn til hans núna um þrjúleytið í dag.
Þá voru 11-12 skip að veiða úr stórri torfu utarlega í Breiðafirði, miðja vegu milli Látrabjargs og Öndverðarness.
„Aðstæður til veiða eru með skásta móti núna, svolítil kvika en lítill vindur. Það gengur betur í dag en síðast þegar veitt var og menn voru að lenda í hremmingum, rífa og sprengja nætur. Það verður þó ekki lengi friður frekar en fyrri daginn því spáð er brælu aftur í fyrramálið og fram yfir helgi,“ sagði Grétar.
Í máli hans kom fram að loðnan sem nú væri verið að veiða ætti mjög stutt eftir í hrygningu.