Þegar Marta Magnúsdóttir sá auglýst eftir ungu fólki í tímabundna vinnu á Grænlandi var hún ekki lengi að grípa tækifærið. Hún segir það alltaf hafa verið draum sinn að komast til Grænlands, og þá ekki bara sem ferðamaður.

„Svo sá ég á köldum vordegi auglýsingu sem talaði beint til mín. Það var verið að auglýsa eftir fólki í vinnu við fiskveiðar. Við myndum búa í kofa og í skála og búa til hundanammi úr fisknum sem við ættum að veiða, með því að sólþurrka fiskinn. Tveimur mínútum síðar var ég búin að sækja um.“

Auglýsingin var frá Nordjobb, norrænni vinnumiðlun sem útvegar ungmennum á aldrinum 18 til 30 ára árstíðabundna sumarvinnu á Norðurlöndunum. Hún fékk starfið, lagði af stað í maí síðastliðinn og átti ekki flug til baka, því ekki var vitað nákvæmlega hvenær verkefninu lyki. Reiknað var með rúmum mánuði eða svo. Það fór svo þannig að eftir sjö vikur flaug hún aftur heim.

Draumur

Fyrirtækið rekur Jasper nokkur, Dani sem búið hefur lengi á Grænlandi ásamt grænlenskri eiginkonu sinni, Mariu, og börnum þeirra.

„Hann var í námi við kennaraskóla í Danmörku og ætlaði upphaflega að vera á Grænlandi í eina önn í vettvangsnámi, en endaði svo bara sem sjómaður á Grænlandi og veit ekkert betra.“

  • Siglt á smábátum milli jakanna. MYND/Marta Magnúsdóttir

Þau búa í Ilulissat, um fimm þúsund manna bæjarfélagi sem stendur við Diskóflóa á vestanverðu Grænlandi, rétt við Ísfjörðinn svonefnda sem svo heitir vegna ísjakanna sem brotna þar úr skriðjökli innst í firðinum.

„Við vorum þarna sex frá Norðurlöndunum, öll undir 30 ára. Þarna vorum við að veiða við klettana með handafli. Stóðum þar með háfa og veiddum loðnuna þegar hún var komin. Þetta var svo mikill draumur. Þetta var allt svo ótrúlega áhugavert, og ótrúlega framandi.“

Hvellir frá ísnum

Þegar hún kom á staðinn þurfti hópurinn fyrst að fara í fimm daga sóttkví, en notuðu tímann meðal annars til að fara í göngutúra að skoða sig. Reglulega heyrðu þau hvelli frá ísnum, en þá var annað hvort að brotna úr honum eða jakabrotum var að hvolfa. Þegar síðan sóttkvínni var lokið fór hópurinn niður á höfn og hoppaði þar um borð í lítinn bát, veiðarfæralausan.

„Við siglum frá höfninni í Ilullisat, en hún er stórkostleg af því það er skriðjökull þarna úr Grænlandsjökli að brotna út í sjóinn. Þannig að það er bara ís, endalaus ís. Við sigldum þarna á litla bátnum í svona hálftíma, og þurftum að fara í gegnum ísinn og hann var bara mjög djarfur við það. Hann sagði bátana vera með þykkari botn en gengur og gerist, af því það er ís þarna allt árið bókstaflega.“

Kofarnir á klöppunum

Á leiðinni sáu þau marga kofa á klapparströndinni, lítil timburhús sem hvorki eru með rafmagn eða vatn, og ekkert internet.

„Það var vont veður, bara ískalt, og við vorum þarna og biðum í viku minnir mig. Hann fór baka en kom á hverjum degi að athuga hvort hann sæi loðnu eða heyrði fréttir af loðnu í bænum. Allir sjómenn bæjarins bíða eftir því að loðnan fari að láta sjá sig. Hún er aðalbeitan þeirra yfir veturinn.“

Á meðan loðnunnar var beðið notuðu þau tímann til að skoða umhverfið, fara í gönguferðir eða vera inni við lestur. Oft sáu þau heimskautarefinn sem þarna er mikið á ferðinni.

„Svo vorum við stundum að leita að interneti. Það var einn blettur þar sem hægt var að ná sambandi, en það fór svolítið eftir veðri og vindum hvar hann var nákvæmlega.“

Fréttist af loðnu

Kvöld eitt kom svo eigandinn loksins í kofann til þeirra og sagði að frést hefði af loðnu.

„Það fóru tveir með honum og þeir settu bala um borð í bátinn, fylltu hann eins og hægt var. Svo strax morguninn eftir fórum við á vinnusvæðið okkar í litlum firði hinu megin við. Hann var þarna með svæði á leigu, því það er ekkert hægt að kaupa land þarna, það verður að leigja eða fá leyfi til að vera með aðstöðu. Þarna var hann búinn að setja upp grindur til að leggja fiskin á og þurrka í sólinni.“

  • Loðnan þurrkuð á grindum í sólinni. MYND/Marta Magnúsdóttir

Þegar þarna var komið var verðið tekið að batna mjög.

„Veðrið fór að verða ótrúlega milt og gott, og maður trúi því varla að það gæti verið svona gott í Grænlandi. En þetta er algengt þarna, að sumarið verði mjög milt. Mikil sól og hlýr vindur, og svo er mjög bjart þarna af því við erum svo nálægt jöklinum.“

Veitt með háf

Næstu dagana er síðan vaðið í að veiða loðnu.

„Á hverjum degi fara einhverjir út með honum að leita að loðnu og veiða með háfi. Síðan var siglt til baka og þar stóðu hinir við bakkana og voru að raða loðnunni á grindurnar. Síðan þurfti að færa grindurnar til eftir kúnstarinnar reglum og raða þeim upp og stafla svo nóg pláss væri fyrir allt og nógur vindur sem færi á milli. Þetta var hörkupúl og maður var alveg búinn á því fyrstu dagana.“

Hún segir fólk þó hafa verið fljótt að komast í form, enda voru grindurnar 20 kíló hver og það þurfti að ganga með þær, og þá voru tvær teknar í einu.

„Þetta var samt svo magnað því við þar sem við stóðum þarna undir berum himni að raða loðnunni á grindurnar þá var útsýnið svo flott. Víðernin og sjórinn og á hverjum degi voru komnir nýir ísjakar. Svo flippuðu þeir kannski og þá litu allir við að sjá hvað gerðist. Oft komu þá öldur frá þeim en ekkert rosa mikið sem við upplifðum. Svo þegar við vorum búin með skammt dagsins var vinnudagurinn búin.“

Tonn á dag

„Þetta var svona tonn á dag sem hópurinn saman veiddi og var settur á grindur. Síðan var stórmerkilegt að þegar við fórum að veiða þá kannski finnum við stað þar sem loðnan var mætt, og þá allt í einu birtast einn eða tveir eða þrír bátar fljótlega og sæta færis þangað til kemur að þeim eða jafnvel mæta sjálf með háfinn sinn. Þetta verður eins og villta vestrið, og þetta voru stundum bátar með heilu fjölskyldunum. Einhvern tímann sá ég tvo báta og það voru 15 manns á hverjum bát, börnin ekki í björgunarvesti og allir með háfa og svo var bara veitt.“

Ekkert rennandi vatn var í kofunum þannig að nota þurfti vatn úr lækjarsprænu rétt hjá, en ekki samt eftir að hlýna tók því þá varð vatnið of gruggugt.

„Þá þurftum við að sækja og bræða hann. Við fórum þá á bátnum og stoppuðum við einhvern ísjaka, ekki þó stóran því þar var hætta á ferð, og notuðum hníf til að brjóta af heilleg stykki. Svo var þetta látið bíða í sólinni í dágóða stund, sem bræddi ysta lagið af. Svo var þetta sett ofan í vatnstank, en vatnið þurfti að tæma úr honum daglega og ná í nýtt því ekki mátti leyfa bakteríunum að grassera.“

Safnað í poka

Eftir nokkrar vikur var farið að safna loðnunni saman í kartöflupoka og siglt með hana í land.

„Þá vorum við komin á akkorð og fengum borgað eftir því hve marga poka við gátum fyllt. Svo settum við hana í kartöflugeymsluskúr og létum hana þorna aðeins betur þar.“

Áður en loðnan mætti var nokkrum sinnum siglt út á bátnum með eins konar landnót til fiskveiða, þannig að tveir spottar voru í landi og síðan togað inn.

„Við stöndum þá í landi og höldum í langa spotta sem koma frá netinu sitt hvoru megin. Fyrst slökum við og síðan kemur að því að við eigum að draga inn á fullu, og erum þá bara á netaveiðum. Engar vélar eða neitt. Allir svitnuðu þvílíkt við þetta, en stundum kom ekki neitt úr þessu.“

Seldu loðnu í soðið

Hún segir að flestir sem komu til að veiða loðnu þarna við klappirnar hafi reyndar verið að ná sér í beitu

„Í gamla daga var algengara að þurrka loðnuna. Þetta voru matvæli yfir veturinn, þurrkuð loðna, þannig að þetta er aldagömul aðferð hjá þeim. Hún var þá hengd á spotta og látin hanga lóðrétt, en við létum okkar fiska hanga lárétt á þessum grindum.“

  • Sumir hengdu loðnuna á pallgrindur kofanna. MYND/Marta Magnúsdóttir

Útgerðin í Ilulissat er mestmegnis smábátaútgerð. Sjaldan sáust stærri bátar fyrir utan bát dönsku landhelgisgæslunnar.

„Eitt skipti var reyndar krabbabátur þarna á ferð. Það var ekki stór bátur samt, ekki skip, en stærri en hinir bátarnir og þeir veifa til okkar og spyrja hvort við eigum loðnu fyrir þá í kvöldmatinn. Þá er bara sala milli bátanna úti á hafi, við seldum þessum mönnum loðnu í soðið það kvöldið.“

Loðna og franskar

Marta segir að sérlega gaman hafi verið að fylgjast með Mariu, hinni grænlensku konu eigandans.

„Þegar við vorum byrjuð að vinna mikið var hún mætt til að elda ofan í okkur. Hún var algjör listakokkur, en eftirminnilegasta máltíðin kannski var fiskur og franskar með loðnu. Inn á milli var hún svo að dunda sér við að tína jurtir eða gera að selskinni eða eitthvað. Svo var hrein dásemd að sitja með þeim hjónum á kvöldin og hlusta á sögurnar.“

  • Einn af stóru jökunum. MYND/Marta Magnúsdóttir

Nokkrum sinnum fór hópurinn í bæinn. Jasper var þar með verksmiðju þar sem hann var að frostþurrka fisk.

„Hann var að gera harðfisk og við vorum að aðstoða við það. Það er eitt það allra besta sem ég hef smakkað. Þetta fer allt á innanlandsmarkað eins og er, og er ótrúlega gott.“

Selveiðikeppni

Einnig fóru þau í bæinn á þjóðhátíðardaginn.

„Aðaldagskrárliður dagsins var selveiðikeppni,“ segir Marta. „Þá stóðum við ekki við höfnina heldur við sjóinn, nálægt hátíðarsvæðinu. Þessir litlu bátar flykktust að landi og þar er síðan talið niður og þá hefst keppni um hver er fyrstur að koma til baka með sel. Svo kom fyrsti inn með sel til baka og þá hópaðist fólkið að og byrjaði að skera sér bita af selnum. Það var merkilegt að fylgjast með þessu. Sumir voru að borða einhver innyfli þarna á bakkanum, ennþá heit og voru að bjóða okkur, en við vorum ekki tilbúin að smakka það. Eftir daginn voru komnir þó nokkrir selir og þá máttu allir sækja sér kjöt. Svo eftir daginn voru allir mættir í laut með eldivið til að kveikja lítið bál og síðan var bara hver fyrir sig með fjölskyldu og vinum að grilla.“

Marta segir að sig langi aftur til Grænlands, jafnvel strax næsta sumar og þá aftur til sama atvinnurekanda.

„Hann er líka með sleðahunda á veturna og fer þá að veiða með þeim. Það er kannski orðið auðveldara fyrir marga að vera með vélsleða en hann leggur mikið upp úr þessari fornu hefð, og finnst að það mættu vera fleiri hvatar fyrir þá sem vilja ennþá nota þessar þjóðlegu venjur. En nú er orðið flóknara og dýrara að vera með hunda.“

Pólfari og skátahöfðingi

Marta Magnúsdóttir er formaður stjórnar Landssambands íslenskra skáta, eða Skátahöfðingi Íslands, en það er töluvert tímafrekt sjálfboðastarf. Í símaskránni er hún skráð pólfari, enda fór hún á Norðurpólinn fyrir nokkrum árum með rússneskum vísindamönnum í tengslum við ráðstefnum um norðurslóðir. Svo er hún með Bachelorgráðu í menntunarfræðum og kennir nú nemendum á unglingastigi í grunnskóla á Grundarfirði. Sjálf er hún frá Grundarfirði og kann vel við sig þar, en sjómennskan stendur henni nærri því afi hennar og amma voru útgerðarhjónin landskunnu, Soffanías Cecilsson og Hulda Vilmundardóttir.