Pönnusteikt loðna er vinsæll matur víða um heim, þótt Íslendingar hafi fæstir prófað slíkt. Til þessa hefur ekki einu sinni verið hægt að fá loðnu í fiskbúðum hér á landi. En Ísak Stefánsson, fisksali í Mjódd, ákvað að gera svolitla tilraun og bjóða viðskiptavinum sínum upp á loðnu.

Tilrauninni hefur verið vel tekið og hann er búinn að selja um 200 kíló.

„Ég er búinn að taka 230 kíló í hús, sem er eiginlega magnað miðað við það að þetta átti bara að vera einhver tilraun til að byrja með og ég tók bara inn 30 kíló í fyrstu sendingu.“

Hann segir eitthvað um að Íslendingar kaupi sér loðnu, en mest séu það útlendingar sem taka hana.

„Þeir þekkja þetta miklu betur en Íslendingar, sem matfisk.“

Best að pönnusteikja

Matreiðslan er einföld.

„Lang þægilegasta aðferðin er að pönnusteikja hana. Setja salt og pipar á hana, eða salt og sítrónupipar. Hafa bara nógu góðan og mikinn hita á pönnunni svo hún verði stökk. Fínt að slíta af henni hausinn eða skera aðeins í hausinn svo það verði auðvelt að slíta frá. Um leið og þú dregur hausinn í burtu þá koma iðrin með. Hún er frekar rýr að innan þannig séð, þannig að slógið sem fylgir hausnum er frekar lítill poki rauður. Og þegar hann er kominn frá þá er bara að steikja.“

Svo má líka djúpsteikjana í orly-deigi, eða bar velta henni upp úr krydduðu hveiti og steikja þannig á pönnu.

„Mér persónulega finnst betra að steikja hana svolítið vel þannig að hún verði þokkalega stökk, hálfpartinn eins og snakk.“

Hrognalottóið

Loðnuna fær hann beint úr yfirstandandi loðnuvertíð. Hún er blönduð í fiskborðinu, sumar loðnurnar eru hrognafullar, aðrar ekki.

„Þetta er bara eins og lottó hvort þú færð hana með hrognum eða ekki.“

Loðnan í fiskborðinu. FF MYND/Guðsteinn
Loðnan í fiskborðinu. FF MYND/Guðsteinn

Loðnuvertíðin er á lokametrunum þannig að óvíst er hversu lengi verður hægt að fá þessa vöru í fiskbúðinni í Mjódd, en Ísak selur hana á 780 krónur kílóið, sem hann segir hreint gjafverð miðað við matvöru almennt.

LEIÐRÉTTING

Ísak Stefánsson er eigandi Fiskbúðar Hólmgeirs í Mjódd, keypti hana af Hólmgeiri Einarssyni sem áður rak búðina. Í prentútgáfu Fiskifrétta, sem komu út 23. mars, er Ísak ranglega nefndur Hólmgeir.