Blobfiskur eða slímugi hlaupfiskurinn eins og hann gæti kallast á íslensku er af mörgum talinn ljótasti fiskur í heimi. Hann var fyrir skömmu kosinn lukkudýr Ljótu dýraverndunarsamtakanna (Ugly Animal Preservation Society).
Fiskurinn, sem er fullvaxinn um 30 sentímetrar á lengd, líkist einna helst hlaupi á disk eða blautri tusku og lifir í sjónum við Ástralíu og Nýja-Sjáland. Hann er vel aðlagaður lífinu á miklu dýpi og er að mestu vöðvalaus. Fiskurinn eyðir ævinni lónandi rétt yfir sjávarbotninum þar sem hann lifir í vellystingum á humri og rækju.
Lítið er vitað um þessa fisktegund en talið er að hún nái ekki kynþroska fyrr en við 25 ára aldur og að hún sé í útrýmingarhættu. Þrátt fyrir að slímugi hlaupfiskurinn sé óætur veiðist hann talsvert sem meðafli.