Ljósafell, togari Loðnuvinnslunnar í Fáskrúðsfirði, kom til heimahafnar í gær eftir að hafa verið í slipp í Færeyjum síðan í lok ágúst.

„Við höfum þann sið að senda skipin okkar í slipp á tveggja ára fresti. Öðru viðhaldi sinnum við hér á staðnum,“ segir Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar, í samtali við www.austurfrett.is

Ljósafell er einn af svokölluðum Japanstogurum sem rekja má til samnings íslenskra stjórnvalda við Japani um raðsmíði á tíu togurum fyrir íslenska togaraflotann árið 1971. Fyrsta skipið, í þessari raðsmíði var Vestmannaey VE sem kom til Hafnarfjarðarhafnar í febrúar 1973. Ljósafell SU kom til heimahafnar á Fáskrúðsfirði í maí 1973 og er enn í notkun hjá Loðnuvinnslunni.
Aðal- og ljósavélar voru teknar upp, skipið málað að utan, í lest, á millidekki og víðar, allir botn- og síðulokar verið teknir upp. Þá var björgunarbúnaður yfirfarinn, haffæri endurnýjað, skipið allt þykktarmælt fyrir utan aðra yfirhalningu en verknúmerin voru alls 130 talsins.
Skipið var sent til Færeyja að undangengnu útboði.

„Það skiptir ekki öllu hvort við siglum í 22 tíma til Færeyja eða um 20 tíma til Akureyrar eða 30 tíma til Reykjavíkur,“ útskýrir Friðrik í samtali við Austurfrétt.