Markaðurinn í Benalúa er ekki stór og nota heimamenn reyndar á hann smækkunarviðskeytið merdad illo. Mercado Central á breiðgötu Alfonso el Sabio er mun stærri og fjölsóttari enda aðalmarkaðurinn í Alicante og með fjölbreyttast úrval sjávarfangs og landbúnaðarafurða.
Ein þeirra sem venur komur sínar á litla, rólega markaðinn í Benalúa að minnsta kosti einu sinni í viku er Maria del Carmen García. Hún býr í næsta nágrenni við markaðinn og aðgengismál eru í góðu lagi fyrir hjólastólinn hennar. Hún segir þægilegast fyrir sig að kaupa inn þegar Manolo Fernandez er á sínum bás. Hann er á fimmtugsaldri, Alicantari og fisksali af fjórðu kynslóð. Bæði er hann fljótur að finna bestu bitana og er ekkert alltof nákvæmur með vigtina. Hún fær því yfirleitt meira í pokann en hún greiðir fyrir. Í þetta sinn valdi hún vænan smokkfisk sem hún ætlaði að hreinsa heima, skera í skífur og djúpsteikja. Manolo fann rétta fiskinn og brá sér út fyrir borðið til að afhenda Mariu fiskinn og taka við greiðslu.
- Merluza hrognin trekkja ávallt viðskiptavini að.
Í borðinu hjá Manolo voru líka girnileg hrogn úr merluza sem heimamenn skera gjarna niður í þykkar skífur og steikja upp úr olíu og hvítlauk. Þau eru þó ekki hversdagsmatur því kílóið kostar 15,60 evrur, um 2.300 ÍSK. Smokkfiskurinn er þó ennþá dýrari eða 19 evrur kílóið, nærri 2.800 ÍSK. Skötuselurinn er á svipuðu verði og smokkfiskur.
Óðir í fisk
Margir Spánverjar kjósa heldur að kaupa í soðið á mörkuðunum en í stórmörkuðum þótt þar séu einnig oft mjög glæsileg fiskborð. Maria kveðst alltaf hitta nágranna sína þegar hún fer á markaðinn og oft setjast þeir saman niður á einhverju veitingahorninu, fá sér hressingu og spjalla. Markaðurinn gegnir því líka félagslegu hlutverki.
- Skötuselur er með betri matfiskum sem finnast.
Spánverjar eru reyndar óðir í fisk og í hópi þjóða heims þar sem neysla sjávarafurða er hvað mest. Enda er sjórinn allt í kringum Íberíuskagann krökkur af góðmeti og tegundum sem eru okkur hér í norðrinu dálítið framandi. Af Evrópuþjóðum eru það einungis Portúgalir og Norðmenn sem neyta meiri sjávarafurða en mesta neyslan í öllum heiminum er í Japan.
Saltfiskurinn í silfursæti
Samkvæmt samantekt fisksölu- og dreifingarfyrirtækisins Cocelang á Spáni eru þetta þær tíu fisktegundir sem helst verða fyrir valinu hjá spænskum neytendum. Spænsku heitin eru í sviga:
- Hvítlýsingur (sp. merluza)
- Þorskur (bacalao)
- Lax (salmón)
- Ansjósa og sardínur (boquerón y sardina)
- Túnfiskur (atún)
- Sólflúra (lenguado)
- Vartari (lubina)
- Makríll (caballa)
- Skötuselur (rape)
- Bleikja (trucha

- Tegundafjöld einkennir fiskmarkaði í suðlægari löndum, nokkuð sem er mörlandanum framandi.