,,Það hefur verið rólegt yfir síldveiðunum að undanförnu. Síldin er á litlum blettum og aflinn ekki mikill. Skipin hafa fengið upp í 150 tonn og niður í 70 tonn í holi eftir 6-12 tíma tog,” sagði Stefán Ingason stýrimaður á Vilhelm Þorsteinssyni EA þegar Fiskifréttir ræddu við hann í gær.
Skipið var þá statt sunnan Breiðdalsgrunns á stað sem sjómenn kalla ,,Utan fótar”. Stefán sagði að kaldara væri í hafinu og veiðin daufari en í fyrra á sama tíma. Í síðasta túr hefði aflinn dugað til þess að halda uppi fullri vinnslu um borð en því væri ekki að heilsa í þessum túr. Fram kom í máli Stefáns að makríllinn væri farin að gera vart við sig og væri um það bil 10-15% af aflanum.
Innan við tíu íslensk skip eru byrjuð veiðar á norsk-íslensku síldinni á þessari vertíð en þeim mun væntanlega fjölga eftir sjómannadag þegar flotinn heldur út á ný. Eitt færeyskt skip, Norðborg, hefur verið að síldveiðum í íslensku lögsögunni það sem af er.