Lítið hefur farið fyrir sæsteinssugu (steinsugu) á undanförnum þrem til fjórum árum en hún var nokkuð algeng hér við land um nokkurra ára bil. Hún er rándýr eða sníkjudýr, eftir því hvernig hún er flokkuð, og leggst á fisk og sýgur úr þeim blóð og voru áberandi af henni fréttir um skeið, ekki síst frá stangveiðimönnum sem sáu illa bitna fiska.

Í ársskýrslu dýralæknis fisksjúkdóma segir að hún hafi orðið fastagestur frá árinu 2006 að því talið er samfara hlýnun sjávar.

Sæsteinsuga er af flokki hringmunna, sem greina sig frá fiskum meðal annars með því að vera án kjálka, hryggjarliða, hreisturs og samstæðra ugga. Sníkillinn getur náð allt að meter á lengd og leikið hýsla sína grátt og dæmi eru um það erlendis að sugur hafi farið langt með að þurrka upp heilu stofnana.

Sníkillinn hefur einkum gert vart við sig við sunnanvert landið. Sérfræðingar á fyrrum Veiðimálastofnun (nú Hafrannsóknastofnun) gerðu á sínum tíma tilraunir til að finna ummerki hrygningar sæsteinsugu í íslenskum ám, en til þessa hafa lirfur hennar ekki fundist, né önnur merki um hrygningu.

„Tegundin er því talin flökkufiskur frá hlýrri svæðum og hefur að öllum líkindum ekki náð að loka lífsferlinum í íslenskri náttúru þótt slíkt sé ekki útilokað. Uppruninn var einnig skoðaður nánar og bentu niðurstöður til þess að sæsteinsuga við Íslandsstrendur tilheyri evrópskum stofni sæsteinsugu,“ segir í ársskýrslunni.

--

Það verður seint sagt að þetta rándýr sé sérstakt augnayndi. Mynd/Hafrannsóknastofnun