Lokið var við að landa 390 tonnum af síld úr Bjarna Ólafssyni AK í Neskaupstað síðdegis á mánudag. Þá var tekið til við að landa 1.400 tonnum úr Berki NK.

Þetta kemur fram á heimasíðu Síldarvinnslunnar í Neskaupstað sem ræddi við Hjörvar Hjálmarsson, skipstjóra á Berki.

„Við byrjuðum á að taka eitt hol í Norðfjarðardýpinu. Þar fékkst ágæt síld en okkur þótti hún heldur smá svo við færðum okkur norðar. Við tókum síðan megnið af aflanum á Glettinganesflakinu. Þar fékkst síld sem var 360-370 grömm meðalþyngd og hentar afar vel til vinnslu. Það var töluvert af síld að sjá þarna á Glettinganesflakinu og einnig á Héraðsflóadýpinu. Það var bara býsna líflegt á þessum slóðum. Mér líst ágætlega á upphaf þessarar síldarvertíðar, hún fer vel af stað,“ segir Hjörvar.

Vinnsla á síldinni gengur vel í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar.

Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóri segir að þar séu unnin 700-800 tonn á sólarhring.

„Við erum að fá mjög góða síld og erum að upplifa bullandi síldarvertíð. Afköstin fara eftir því hvað er verið að vinna. Stundum heilfrystum við og stundum er flakað og stundum er hvor tveggja gert. Þetta fer eftir því hvað markaðurinn vill. Síldarmarkaðir eru góðir núna. Það er víða öskrað á síld,“ segir Jón Gunnar.