Börkur NK kemur til Neskaupstaðar í dag með 490 tonn af makríl. Allt bendir til að þetta verði síðasti makrílfarmurinn sem tekinn verður til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar á þessari vertíð. Á vertíðinni veiddi Börkur í samstarfi við fjögur önnur skip en það voru Beitir NK, Barði NK, Margrét EA og Vilhelm Þorsteinsson EA. Samstarfið gekk vel í alla staði og það tryggði að ávallt bærist á land eins ferskt og gott hráefni og mögulegt var. Í fyrra barst síðasti makrílfarmur vertíðarinnar til vinnslu í Neskaupstað þann 21. ágúst en nú kemur lokafarmurinn 25. ágúst. Á vertíðinni sem nú er að ljúka hafa skipin í samstarfinu veitt tæplega 30.000 tonn.
Tíðindamaður heimasíðu Síldarvinnslunnar ræddi við Odd Einarsson yfirverkstjóra í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar og spurði hann hvernig vinnslan á vertíðinni hefði gengið. „Ég held að verði að segja að hún hafi gengið býsna vel. Það hefur gengið betur að veiða en í fyrra og það skiptir auðvitað öllu máli. Að undanförnu hefur fiskurinn verið betri en fyrr á vertíðinni og upp á síðkastið hefur hann mest verið heilfrystur og hausaður. Nú, þegar vinnslu á lokafarmi vertíðarinnar er lokið, verður fiskiðjuverið gert klárt fyrir vinnslu á síld. Það lítur allt vel út varðandi síldarvertíðina og það er tilhlökkunarefni að takast á við hana,” sagði Oddur.