Meðal nýstárlegra verkefna sem nú er unnið að er gerð straumalíkans af Íslandsmiðum sem gæti gefið skipstjórum auknar vísbendingar um hvar fiskinn sé að finna hverju sinni. Þetta kemur fram í viðtali við dr. Guðrúnu Marteinsdóttur fiskifræðing og prófessor við Háskóla Íslands í páskablaði Fiskifrétta sem kom út í dag.
Straumalíkanið, sem þegar hefur verið þróað, lýsir flæði sjávar í kringum landið og skapa möguleika á því að afla aukinnar vitneskju um ferðir fiska. Uppi eru hugmyndir um að nota líkanið til að auðvelda skipstjórum að finna fiskinn á miðunum fljótt og vel. Í því sambandi yrði safnað saman öllum fáanlegum upplýsingum um veiðistaði einstakra tegunda og hvenær fiskurinn var veiddur. Straumalíkanið myndi síðan gefa vísbendingar um hvar helst væri veiðivon miðað við skilyrðin í sjónum á hverjum tíma. Jafnframt gætu veiðiskipin á miðunum sent líkaninu á sjálfvirkan hátt gögn um gervihnött þannig að unnt væri að endurkeyra líkanið með nýjustu upplýsingum. Ef nægilegt fjármagn fæst til þessara rannsókna gæti þetta hjálpartæki verið komið í gagnið innan fimm ára.
Sjá nánar viðtal við Guðrúnu í páskablaði Fiskifrétta um þessar og fleiri forvitnilegar rannsóknir sem nú er unnið að.