Loðna fór að veiðast fyrr í dag úti af Ísafjarðardjúpi. Polar Amaroq fékk þar afla í gærkvöldi eins og fram er komið. Loðnuskipin leituðu að loðnunni í morgun og fundu lítið fyrst en síðan lifnaði yfir veiðinni um hádegisbilið, að því er Ingimundur Ingimundarson, útgerðarstjóri uppsjávarskipa hjá HB Granda, sagði í samtali við Fiskifréttir.

Ingimundur sagði að ekki væri vitað hve mikið magn væri þarna á ferðinni. Loðnan væri smærri en sú loðna sem veiddist suður af landinu og í Faxaflóa, eða um 50 stykki í kílóinu. Hún væri einnig skemur á veg komin í þroska. Hrognafyllingin væri ekki nema 18 til 20%. Þó yrði reynt að vinna hrogn í einhverjum mæli á Akranesi en annars yrði loðna fryst á Vopnafirði.

Loðnuskipin er nú flest á þessu svæði svo sem Faxi RE, Börkur NK, Huginn VE Jóna Eðvalds SF, Hoffell SU og fleiri skip.