Fyrsta uppboð á fiskmarkaðinum í Grimsby á þessu ári fór fram nú í byrjun vikunnar eftir langt hlé yfir hátíðirnar. Uppboðið var líflegt og mikil eftirspurn, að því er fram kemur á vef FishUpdate .
Rúmlega 2.600 kassar af fiski, sem komu frá Íslandi, Noregi og Færeyjum, voru í boði. Þetta er ein best byrjun í janúar á markaðnum í langan tíma og gæði fisksins rómuð.
Fiskurinn seldist á háu verði, einkum ýsan sem fór á allt að 3,5 pundum á kílóið (um 690 krónur íslenskar). Stærri þorskur fór á 2 til 3,5 pund kílóið (395 til 690 krónur íslenskar).
Eins og venjulega á þessum tíma kom megnið af fiskinum frá Íslandi. Breskir fiskkaupendur fagna því að nokkur íslensk skip skuli hafa róið milli jóla og nýjárs og sent fiskinn á markað í Grimsby.