Í borginni Nanjing í Kína hefur verið bryddað upp á allnýstárlegri aðferð til að selja lifandi krabba. Hægt er að kaupa krabbann í sjálfsala á brautarstöðinni, að því er segir í frétt á www.fis.com .
Menn geta þannig gripið krabbann með sér á leiðinni heim og þurfa ekki að leggja lykkju á leið sína á markaðinn eða í matvöruverslun. Meira að segja er hægt að kaupa það krydd sem við á í sjálfsalanum. Krabbinn, sem er í neytendaumbúðum, er seldur frá 200 krónum íslenskum stykkið upp í 1.000 krónur allt eftir stærð.
Krabbinn er geymdur við 5 til 10 gráðu hita á Celsius í sjálfsalanum og er í hálfgerðum dvala en með fullu lífsmarki. Ekki verður því hægt að fá ferskara hráefni til eldunar. Ef kaupandinn lendir í því að fá dauðan krabba fær hann þrjá krabba ókeypis í sárabætur!