Ástralski sportveiðimaðurinn Angus James rak upp stór augu er hann dró vænan vatnaborra á land á dögunum. Þegar hann losaði öngulinn og hugðist sleppa fiskinum uppgötvaði hann sprelllifandi frosk í koki hans. Frá þessu er greint í frétt á vefnum nordjyske.dk.
Veiðimaðurinn náði að smella mynd af froskinum áður en hann stökk úr gini vatnaborrans frelsinu feginn. Myndin hefur farið sem eldur um sinu í netheimum ásamt viðtali við Angus James þar sem hann segir veiðisöguna. „Froskurinn blikkaði augunum og virtist brosa en það hefði ég líka gert í hans sporum,“ er haft eftir honum.
Reyndar gæti læðst að mönnum sá grunur að þetta hafi allt saman verið sett á svið en sagan er engu að síður góð.