Tilraunir til veiða á karfa með því að nota svokallaðan T-90 trollpoka frá Fjarðaneti á Akureyri, sem er dótturfyrirtæki Hampiðjunnar á Íslandi, við veiðarnar lofa svo sannarlega góðu. Svo virðist sem pokinn skilji út smáan karfa í umtalsverðu magni og árangurinn sé sambærilegur við tilraunir, sem fóru fram á vegum Hafrannsóknastofnunar og miðuðu að því að skilja út smáfisk á þorskveiðum vestan við land.
Lofar góðu
,,Við vorum með hefðbundinn karfariðil, 135 mm í trollpokanum sem var með fjögurra byrða T-90 þverneti og DynIce Quicklínum (í einkaleyfisferli). Þótt um tilraun hafi verið að ræða og alls ekki sé komin full reynsla á notkun T-90 pokans á karfaveiðum þá er óhætt að fullyrða að hann lofar mjög góðu,“ segir Angantýr Arnar Árnason, skipstjóri á ísfisktogaranum Kaldbaki EA, en T-90 pokinn var reyndur í veiðiferð skipsins fyrir sjómannadaginn.
Angantýr Arnar segir að trollpokinn hafi hleypt út miklu magni af lifandi smáfiski. Reyndar hafi útskilnaðurinn verið það mikill að menn spyrji sig þeirrar spurningar hvort ekki þurfi að smækka möskvann. Svar við því fáist aðeins með frekari tilraunum.
Reyndist vel á þorskveiðum
,,Við höfum reynt T-90 pokann á þorskveiðum og hann virkar gríðarlega vel í blönduðum afla. Nánast allur þorskur undir 60 cm að lengd hefur skilist út og eftir er bara stærsti og verðmætasti fiskurinn. Fyrstu niðurstöður á karfaveiðum benda til hins sama og maður spyr sig hvort loks sé komin fram aðferð til að flokka lifandi fisk í sjónum. Það styður við sjálfbærni nytjastofna á Íslandsmiðum
Sjá nánar á vef Hampiðjunnar.