Sjávarkuldinn hér við land gerir laxeldið áhættusamt
Guðsteinn Bjarnason
Ólafur Sigurgeirsson, lektor við Háskólann á Hólum, til máls og fjallaði hann í sínu erindi um lágan sjávarhita hér við land og þær áskoranir sem fiskeldisfyrirtæki standa frammi fyrir af þeim sökum
Hann tók svo til orða að eiginlega detti engum heilvita manni í hug að fara að ala lax við hitastig sem er lægra en fjórar gráður.:„En það eru auðvitað það sem við erum að gera á Íslandi.“
Hann nefndi þó að þetta hafi menn einnig reynt við austurströnd Kanada og við Múrmansk í Rússlandi. Við Múrmansk hafi það „til helvítis á tímabili en hefur náð sér á strik aftur“ og nú nýverið „komu fréttir frá austurströnd Kanada að það drápust einhverjir tugir þúsunda laxa út af lágum sjávarhita.“
Íslendingar þekkja þetta líka frá fyrri tíð.
„Þá var fiskeldi hér úti á Sundunum og fiskur drapst bara við að það var farið á báti út að kvíunum og horft á hann. Það var svona það sem við köllum undirkælingu.“
Hann sagði að almennt sé talin veruleg hætta á afföllum ef hitinn fer undir eina gráðu, og dauðamörkin séu við mínus 0,7 fyrir laxfiska miðað við 30 til 35 prósent seltu.
Ólafur skoðaði meðal annars tölur um sjávarhita við Æðey í Ísafjarðardjúpi á árunum 1987 til 2011. Þar mældist lægsti hitinn 4. mars 1989, þegar hann fór niður í mínus 1,7 gráðu.
„Þá hefðu líklega ekki verið margir fiskar eftir að fóðra. En þetta sýnir okkur hvað við lifum á brúninni. Síðan eftir 2000 hefur hitastig þrisvar mælst undir frostmarki.“
Góður vöxtur þrátt fyrir allt
Hann benti þó á að fyrir Austurlandi fari sjávarhiti aldrei eins langt niður eins og fyrir Vestan.
„Engu að síður er verið að ala fisk þarna og þarna er býsna góður vöxtur þrátt fyrir allt,“ sagði Ólafur og vísaði í gögn um vöxt laxanna.
„Hvað menn treysta sér til að taka mikla áhættu við þessar aðstæður þar sem þetta er á mörkunum skal ég ekki segja, en þeir eru að minnsta kosti enn að á austurströnd Kanada og þeir eru að auka við sig í Múrmansk. Ég held að það sé fullt af spennufíklum á Íslandi líka.“
Úr sal var bent á að aðstæður við norðanverð Noreg séu svipaðar og hér. Þar hafi laxeldi blómstrað og vandkvæðin minni en þegar sunnar dregur. Ólafur sagði muninn engu að síður þann að „það er ólíklkegra að hitastigið hlunkist niður í eins krítísk mörk í Norður-Noregi eins og getur gerst hér, þó að Einar gefi okkur vonir um að þetta sé nú allt að lagast.“
Kuldaveitan í norðri gefur eftir
Ólafur vísaði þarna til orða Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings, sem á sömu málstofu fjallaði um þær breytingar sem orðið hafa á veðurfari hér undanfarið. Hann skoðaði sérstaklega hvort naprar norðanáttir séu kannski sjaldnar jafn naprar nú til dags og áður var.
Hann skoðaði þá meðal annars veðurmælingar frá Æðey í Ísafjarðardjúpi, þar sem norðan- og norðaustanáttir hafa jafnan þótt afar kaldar. Niðurstaðan varð sú að á síðustu árum, og sérstaklega frá aldamótum, er áberandi að það er miklu minna um virkilega kalda daga norður í Ísafjarðardjúpi.
„Þetta eru býsna athyglisverðar niðurstöður og tengjast með beinum hætti hörfun hafíssins hérna fyrir norðan.“
Ekki sagðist hann gera sér grein fyrir hvort minna sé um norðanáttir en áður, „en alla vega er norðanáttin ekki eins köld og áður. Og það sem stýrir því er fjarlægðin til hafísjaðarsins vegna þess að ef hafísinn er nálægt þá fáum við til okkar meginlandskulda sem tengist Grænlandi.“
Hitinn í norðanáttinni hefur, samkvæmt útreikningum Einars, hlýnað markvart á síðustu áratugum og samkvæmt mælingunum frá Æðey hefur dögum með norðanátt raunar fjölgað frá því sem áður var.
„Það er sem sagt meira um norðanátt hér á áratugnum 1994-2003 heldur en var á hafísárunum þegar var kaldara.“
Niðurstaðan er því sú að hörfun hafíssins eigi mjög mikinn þátt í þeirri hlýnun sem hér hefur orðið á síðustu áratugum.