Breska utanríkisráðuneytið hefur aðvarað breska ferðamenn sem heimsækja Ísland við því að taka hvalkjöt með sér þegar þeir snúa til baka. Aðvörunin kemur í kjölfar ,,leynilegrar rannsóknar“ á sölu á hvalkjöti á flugvellinum í Keflavík, eins og það er orðað í frétt á fishupdate.com.

Tekið er fram að umhverfissamtök hafi ,,flett ofan af” því að Ísland selji hvalkjöt pakkað til útflutnings í brottfararverslun í Leifsstöð á Keflavíkurflugvelli. Fulltrúar umhverfissamtakanna komu við á Keflavíkurflugvelli á leið sinni til Bandaríkjanna. Þeir segjast hafa staðið starfsfólk verslunarinnar að því að gefa rangar upplýsingar til ferðamanna um að löglegt væri að taka hvalkjötið með til Bandaríkjanna.

Tugir þúsunda Breta heimsækja Ísland árlega. Í aðvörun utanríkisráðuneytisins segir að taki ferðamenn þá áhættu að koma með hvalkjöt til Bretlands eða annarra landa innan ESB eigi þeir yfir höfði sér refsingu, fangelsisvist eða allt að 5 þúsund punda sekt, sem samsvarar um 930 þúsund krónum íslenskum.

Verndarfélag hvala og höfrunga ( The Whale and Dolphin Conservation Society) fór nýlega í kynningarherferð til að vekja ferðamenn sem fara til Íslands til meðvitundar um að með því að borða hrefnukjöt á veitingahúsum væru þeir óafvitandi að styðja atvinnuhvalveiðar Íslendinga.

Í lok fréttarinnar er tekið fram að íslensk stjórnvöld hafi eftir að þetta mál kom upp lýst því yfir að hvalkjöt yrði ekki lengur selt í Leifsstöð á Keflavíkurflugvelli.