Veiðifélag Svalbarðsár er eitt þeirra félaga sem sótt hafa um heimild fyrir ádráttarveiði á hnúðlaxi. Jónas Pétur Bóasson, formaður félagsins, segir að dregið hafi verið fyrir hnúðlaxatorfu í ánni sumarið 2021.
Á miðvikudaginn í síðustu viku hafði veiðst einn hnúðlax í ósi Svalbarðsár þetta sumarið.
„Það hefur ekki orðið vart við hnúðlax uppi í ánni. Það verður bara að fylgjast með eins og þegar við tókum þessa fiska 2021. Þá sáust þrjátíu fiskar í einum hnappi og það náðust sautján,“ segir Jónas.
Redduðu neti og skófluðu hnúðlaxi á land
Það voru menn við veiðar í Svalbarðsá sem komu auga á hnúðlaxana ofan við þjóðvegarbrúna ofan við veiðistað númer 33.
„Þeir sáu þessa hrúgu sem lá þarna og þá var bara farið í það að redda neti og skófla þessu á land. Það leyndi sér ekkert hvaða kvikindi þetta voru,“ segir Jónas, sem kveður hnúðlaxa ekki velkomna á laxaslóðir í Svalbarðsá.
„Maður veit ekkert hvað gerist og fiskifræðingarnir vilja lítið segja. Menn vita ekki hvaða áhrif þetta hefur. Það eru skelfilegar fréttir sem maður heyrir frá Noregi um hvað þetta er orðið gígantískt magn sem menn eru að taka,“ segir Jónas og vísar til frétta af miklum hnúðlaxagöngum í Noregi í sumar.
Eins og að draga plastpoka
Að sögn Jónasar eru hefðbundnir stangveiðimenn síður en svo spenntir fyrir því að setja í hnúðlax. „Sumir veiðimenn segja að þetta sé eins og draga plastpoka. Ef þeir eru búnir að vera lengi í ánni eru þeir alveg máttlausir,“ segir hann.
Þrír hnúðlaxar veiddust í Svalbarðsá sumarið 2019 og fyrrnefndir sautján fiskar 2021. Þeim virðist því fara fjölgandi. „Það er sjálfsagt von á einhverri gusu í sumar,“ segir formaður veiðifélagsins í Svalbarðsá, þar sem menn fylgjast nú grannt með mögulegri göngu hnúðlaxa.