Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur ákveðið að leyfi til veiða á gulllaxi skuli falla niður frá og með 2. desember nk., að því er fram kemur á vef Fiskistofu.

Engar skýringar eru gefnar á þessari ákvörðun en væntanlega er þetta gert samkvæmt ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar sem lagði til að gulllaxaflinn á yfirstandandi fiskveiðiári færi ekki yfir 6.000 tonn. Samkvæmt skýrslum Fiskistofu er búið að skrá 5.400 tonna afla þessa fyrstu þrjá mánuði fiskveiðiársins og sennilega er eitthvað meira í pípunum. Á síðasta fiskveiðiári voru veidd um 12.000 tonn af gulllaxi áður en veiðarnar voru stöðvaðar.

Veiðar á gulllaxi eru ekki kvótabundnar og því hafa þær útgerðir sem áhuga hafa á gulllaxinum keppst við að ná sem mestum afla áður en lokað yrði á veiðarnar.