Togarar Síldarvinnslunnar eru nú að landa víða að. Rætt er við tvo skipstjóra og einn stýrimann á vefsíðu fyrirtækisins í dag og er eftirfarandi færsla þaðan:
Bergur VE er að landa um 70 tonnum í Vestmannaeyjum í dag, Vestmannaey VE landaði 53 tonnum í Neskaupstað í gær og Gullver NS 95 tonnum á Grundarfirði. Afli Bergs og Vestmannaeyjar var blandaður, mest þorskur og ýsa, en afli Gullvers var mest gullkarfi og þorskur.
Heimasíðan sló á þráðinn til Hjálmars Ólafs Bjarnasonar skipstjóra á Gullver og spurði hvernig túrinn hefði gengið. “Hann gekk þokkalega og veðrið var í lagi lengst af, en skítabræla í restina. Við byrjuðum og enduðum túrinn á Nætursölunni en í millitíðinni var verið á Dhornbankanum þar sem við lentum í dálitlu íshavaríi. Við munum taka einn túr í viðbót hér vesturfrá,” sagði Hjálmar Ólafur.
Valtýr Bjarnason, stýrimaður á Vestmannaey, upplýsti í morgun að skipið hefði komið inn til löndunar vegna veðurs. “Við fengum góðan afla á Glettinganesflakinu en svo brældi og þá fórum við inn til Neskaupstaðar, lönduðum og biðum af okkur veðrið. Þegar veðrið gekk niður var haldið út á ný. Togað var á Gerpisgrunni í nótt og nú er verið að leita að ýsu á Skrúðsgrunni,” sagði Valtýr.
Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergi, sagði að um brælutúr hefði verið að ræða. “Við byrjuðum á Gula teppinu og síðan var verið að við Hvalbak. Að því kom að farið var norður á Gletting og þar fékkst bæði þorskur og ýsa. Síðan var haldið suður fyrir land og verið alveg kloss við ströndina í skjóli fyrir veðrinu. Þar fengum við þorsk og ufsa á Víkinni og loks var endað á Reynisdýpinu,” sagði Jón.