Nokkur loðnuskip leituðu loðnu norður af landinu í gær með hverfandi árangri. Eitt þessara skipa var Barði NK. Heimasíða Síldarvinnslunnar í Neskaupstað ræddi stuttlega við Þorkel Pétursson, skipstjóra á Barða, og spurði hvernig leitin hefði gengið.

„Það var leitað bæði grunnt og djúpt en menn urðu lítið varir við loðnu. Við og Bjarni Ólafsson AK leituðum grunnt og sáum ekkert. Við fórum til dæmis langt inn Húnaflóann, alveg inn undir Blönduós. Segja má að eina loðnan sem sást í þessari leit hafi verið út af Ísafjarðardjúpi, 35-38 mílur vestur af Straumnesi, en þar var bræla og ekkert hægt að gera. Við erum núna á Breiðafirðinum á leiðinni í Faxaflóann,“ segir Þorkell.

Börkur NK kemur til Seyðisfjarðar í dag með tæp 3.200 tonn af loðnu sem fékkst suður af landinu og Vilhelm Þorsteinsson EA er væntanlegur til Neskaupstaðar með rúmlega 3.000 tonn.