Venus NS átti að hefja kolmunnaveiðar í Rósagarðinum út af Austfjörðum síðdegis í gær en tvö skip voru þá komin á miðin. Önnur skip í uppsjávarveiðiflotanum leituðu þá að síld vestur af landinu og eitt skip er við síldarleit fyrir norðan landið.
,,Við erum núna um 90 mílur vestur af Reykjanestá. Við komum á miðin í gærmorgun og höfum leitað að síld síðan en með takmörkuðum árangri,“ sagði Karl Ferdinandsson, sem er skipstjóri á Faxa RE í veiðiferðinni sem nú stendur yfir, í samtali á vef HB Granda.
Að sögn Karls hefur ekki verið síldveiði að neinu gagni fyrir vestan landið síðustu dagana. Búið er að leita á svæðinu frá Látragrunni og suður um að Reykjanesi utan hvað ekki hafði verið farið á lokað togsvæði sem er nokkurn veginn á milli 63°N og 65°N vestur af landinu. Það var hins vegar opnað fyrir veiðum í gærdag og hófst síldarleit þar í framhaldinu.
,,Það er kominn kaldaskítur núna og brælu spáð næstu dagana. Maður á því ekki von á miklu fyrr en veðrið gengur niður og þá gæti fyrirvaralaust brostið á góð veiði,“ sagði Karl Ferdinandsson.
Samkvæmt upplýsingum Ingimundar Ingimundarsonar, rekstrarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda, var ákveðið að láta Venus skoða veiðimöguleikana á kolmunna í Rósagarðinum á meðan rólegt er yfir síldveiðunum.
,,Bjarni Ólafsson AK fékk einhvern kolmunnaafla í Rósagarðinum um helgina og Börkur NK er kominn þangað til veiða. Það væri gott ef framhald yrði á kolmunnaveiðinni á heimamiðum,“ sagði Ingimundur Ingimundarson.