Sjávarútvegsvefurinn Undercurrent News hefur það eftir kaupendum og seljendum uppsjávarafurða að rætt sé um möguleika á því að fiskiskip Evrópusambandsins og Noregs landi afla í Færeyjum og hugsanlega Íslandi sem verði í framhaldinu fluttur út til kaupenda í Rússlandi. Þannig verði sneitt hjá innflutningsbanni sem Rússar hafa sett á vöruinnflutning frá Noregi og Evrópusambandsríkjunum.
Engu að síður er því haldið fram að Rússar muni ekki leyfa innflutning á þessum nótum nema aflinn verði unninn í þessum löndum.
Undercurrent News segir að fjölmargir seljendur uppsjávarafurða hafi heyrt um þessar hugmyndir.
„Mest spennandi verður að sjá hvort Norðmenn landi í Færeyjum,“ sagði færeyskur seljandi í samtali við vefinn þar sem hann var staddur á sjávarútvegssýningunni Nor Fishing í Þrándheimi. Hann sagði að Norðmenn ræddu þetta sín á milli en sjálfur kvaðst hann litla trú hafa á því að af þessu yrði.
Jogvan Jespersen, hjá samtökum uppsjávarfyrirtækja í Færeyjum, segir að reglurnar í kringum innflutningsbann Rússa séu mjög óljósar.
„Það er ekki ljóst hvort það að landa aflanum í Færeyjum breyti upprunalandi hans,“ segir Jespersen.
Undercurrent News ræddi einnig við Yury Alasheev, sem er formaður rússnesku hagsmunasamtakanna Fish Union. Hann tók undir það að allt væri óljóst í þessum efnum. Ennfremur þyrfti að skýra betur hvort heimilt væri að flytja unnar sjávarafurðir til dæmis til Hvíta-Rússlands og Kaskstan, sem eru í tollabandalagi með Rússum, og þaðan til kaupenda í Rússlandi.
Alasheev segir að innflutningur í gegnum önnur lönd yrði áreiðanlega háður því að vinnsla færi þar einnig fram.
Hins vegar hefur Frank Asche, prófessor við Háskólann í Stafangri, haldið því fram í norskum fjölmiðlum, að hægt væri að selja sjávarafurðir norskra útgerða til Rússlands í gegnum Færeyjar og Ísland.