Þrátt fyrir að þorskstofninn í Norðursjó hafi heldur braggast á síðustu árum lækkar Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES)  veiðiráðgjöf sína úr 31.800 tonnum í ár niður í 25.500 tonn á því næsta. Ástæðan er sögð sú að enn sé stofninn undir varúðarmörkum og allir árgangar síðan árið 2000 verið lélegir.

Þetta kemur fram á vefsíðu norsku hafrannsóknastofnunarinnar. Þar segir ennfremur að með norðursjávarþorski sé átt við þorskstofnana í Norðursjó, Skagerak og austurhluta Ermarsunds. Erfitt sé að aðskilja þessa stofna og því séu þeir teknir saman sem heild við kvótaúthlutun.

Samkvæmt tölum á vef ICES var stofn norðursjávarþorsks í hámarki upp úr 1970 þegar aflinn nam yfir 350.000 tonnum. Á árinu 1981 var aflinn enn 336.000 tonn en upp frá því hallaði hratt undan fæti og á síðasta ári var heildaraflinn 27.000 tonn.