Í framtíðinni kann Sahara-eyðimörkin að verða upplagður staður fyrir eldi á laxi fyrir Evrópumarkað. Með hjálp sólarorku mætti skapa rétt hitastig fyrir landeldi og landrýmið er meira en nóg.

Þetta segir Barazi-Yeruoulanos framkvæmdastjóri Kefalonia Fisheries, elsta fiskeldisfyrirtækis Grikklands í samtali við IntraFish. Fyrirtækið stundar eldi á tegundunum seabass, seabream og meagre.

Hún bendir á að  í eyðimerkurríkinu Abu Dahbi við Persaflóa sé heimsins stærsta fiskeldisstöð sem noti vatnshringrásarkerfi þar sem styrjur sé ræktaðar vegna framleiðslu á kavíar. Þá sé talið að Egyptar framleiði allt að milljón tonn af eldisfiski á ári í tjörnum og uppistöðulónum, aðallega tegundirnar bass, bream, karpa, tilapiu og mullet. Framleiðslan fer til innanlandsneyslu og vekur því ekki athygli umheimsins.

,,Fiskeldisfyrirtæki í ESB-löndunum norðan Miðjarðarhafs skortir pláss fyrir starfsemi sína en í Sahara- eyðimörkinni er ótakmarkað landrými sem engin not eru fyrir. Við færumst hægt og sígandi í  átt að fiskeldi á landi og úti á rúmsjó,“ segir Barazi-Yeroulanos.