Nú virðist loksins vera að komast á eðlilegt ástand að nýju í viðskiptum Noregs og Kína eftir að Kínverjar tóku að beita norskan innflutning tæknilegum viðskiptahindrunum í kjölfar þess að kínverskum andófsmanni voru veitt friðarverðlaun Nóbels árið 2010.
Per Sandberg sjávarútvegsráðherra Noregs og ráðherra dýraheilbrigðismála í Kína undirrituðu í dag samning um útflutning á laxi frá Noregi til Kína, en hann kemur í framhaldi af samkomulagi um inn- og útflutning á matvælum sem gert var í Björgvin í fyrra mánuði.
Í frétt á vef norska sjávarútvegsráðuneytisins segir að Kína sé mikilvægasta viðskiptaþjóð Noregs í Asíu og mikilvægur markaður fyrir norskar sjávarafurðir. Á árinu 2016 fluttu Norðmenn út 143.000 tonn af sjávarafurðum til Kína að verðmæti 2,75 milljarðar NOK eða jafnvirði 33 millarða ISK. Þar var aðallega um að ræða frystan hvítfisk og uppsjávarfisk, en sala á laxi hefur algjörlega legið niðri undanfarin ár.