Mikil aukning á laxalús í norskum sjóeldisstöðvum á laxi, og nýjar aðferðir við að halda sníkjudýrinu niðri, hafa aukið kostnað við laxeldi í Noregi gríðarlega á undanförnum árum. Svo er komið að stjarnfræðilegum upphæðum er varið á hverju ári í lúsavarnir eða sem nemur 71,5 milljörðum króna árlega. Til að setja það í samhengi er það litlu minna en útflutningsverðmæti þorskafurða gáfu Íslendingum í aðra hönd árið 2017.

Þetta vandamál laxeldisins norska var rætt í sérstakri málstofu á ráðstefnunni Aqua Nor í ágúst, en það var Audun Iversen frá Rannsóknarstofnun norska matvælaiðnaðarins (Nofima) sem gerði kostnað fiskeldisfyrirtækjanna að sérstöku umtalsefni – og segir í umfjöllun miðilsins Fish Site að tölurnar að baki lúsavörnum hafi komið gestum ráðstefnunnar verulega á óvart.

Allt kostar peninga

Iversen sagði að framleiðslukostnaður á laxi sé að aukast hægt og bítandi; það hefur lítið að gera með grunnkostnað eins og fóðurverð heldur meira og minna tengt þörfinni til að lúsaverja fiskinn í kvíunum.

Máli sínu til stuðnings braut hann niður kostnaðinn við einstakar aðferðir við lúsavarnirnar. Notkun grásleppuseiða, eða annars fisks sem nýttur er til þess að hreinsa laxalús af fiski, bætir um það bil 16 krónum ofan á hvert framleitt kíló af eldislaxi. Er þá innifalin kaup á seiðum, flutningur þeirra og annað sem þarf að gera til að halda seiðunum heilbrigðum og virkum í kvíunum.

Aðrar aðferðir, eins og að drepa lúsina með sérstökum leisergeislatækjum, kosta minna. Leisertæknin kostar um fimm krónur íslenskar á kíló, að baða laxinn upp úr sérstökum efnablöndum kostar fyrirtækin frá sjö til fjórtán krónur á kíló. Aðrar nýrri aðferðir sem lofa góðu kosta einnig sitt.

Stærri seiði

Iversen sagði að mikið hefði dregið úr lyfjanotkun við að drepa laxalús, þó það sé vissulega ennþá stundað af eldismönnum. Hins vegar væri ýmiss annar kostnaður sem ekki væri nefndur nákvæmlega, þar sem erfitt er að reikna hann út. Þar má nefna átak um að ala seiði lengur áður en þau eru sett út í kvíarnar, en meðalstærð seiða sem voru sett út í kví árið 2000 var um 80 grömm en viðtekin venja nú til dags er að setja seiðin út í kringum 140 grömm. Þetta kostar sitt. Einnig verður ekki metið hvað það kostar í aukinni vinnu starfsmanna að vinna að eyðingu lúsarinnar, töpuðum laxi vegna lúsasýkingar og fleira.

Iversen sagði vandann vegna laxalúsarinnar svo sannarlega ekki bundinn við Noreg, heldur standi glíman yfir í öðrum stórum eldislöndum eins og Skotlandi, Síle, Kanada og í Færeyjum. Fram til þessa hefur laxalús ekki skapað teljandi vanda í íslensku laxeldi, hvað sem síðar verður.