Í ljósi þess að á undanförnum vikum hafa fjölmargir strokulaxar úr sjókvíaeldi veiðst víða um land, sem bendir til að eldislax í laxveiðiám sé orðinn nokkuð útbreiddur á Íslandi, hefur Matís hleypt af stokkunum þjónustu sem felst í því að erfða- og upprunagreina lax í fiskrækt.
Fiskrækt hefur verið stunduð hér á landi um áratuga skeið til að auka fiskgengd í ám. Sú ræktun byggir á veiðum á klakfiski úr viðkomandi ám og eldi á seiðum í eldisstöðvum.
Sæmundur Sveinsson fagstjóri hjá Matís segir það mjög alvarlegt mál að fá eldisfisk inn í fiskrækt.
Erfðagreining á strokulöxum
„Það getur valdið sprengingu í erfðablöndun innan árinnar. Hættan er sú að alin séu upp seiði sem eru blendingar. Ef þeim er síðan sleppt í ána í miklu magni er hættan sú að erfðablöndunin í ánni magnist upp. Það getur leitt til þess að fleiri eldisgen verða í stofninum og margt bendir til þess að það komi niður á hæfni stofnsins til að lifa af. Erfðafjölbreytileikinn minnkar en hann er nauðsynlegur í náttúrunni til að bregðast við sveiflum í umhverfinu og erfðafjölbreytileikinn er nauðsynlegur fyrir stofninn til þess að lifa af slíkar breytingar,“ segir Sæmundur.
Fiskrækt stunduð víða
Fiskrækt er stunduð víða á Íslandi. Sú þjónusta sem Matís býður upp á byggir á tækni sem hefur verið til í marga áratugi. Aðferðin er sú sama og er notuð til að greina strokulaxa í ám. Erfðagreining á þeim löxum fer jafnan fram hjá Matís. Þau gögn nýtast til þess að greina nákvæmlega úr hvaða sjókví viðkomandi lax slapp.
Sjónrænt mat ekki nægjanlega öruggt
„Með þessari þjónustu býður Matís upp á greiningu á klakfiski, hvort um sé að ræða villtan lax, eldislax eða fyrstu kynslóðar blending. Miðað við þetta stóra strok og mikla magn af eldisfiski sem hefur veiðst í ám undanfarið fannst okkur rétt að benda þeim sem stunda fiskrækt á þessa þjónustu til þess að þeir geti varnað því að það komist eldislax inn í fiskræktina,“ segir Sæmundur.

Í mörgum tilfellum eru strokulaxar auðþekktir á útlitseinkennum, t.d. skemmdum á uggum og eyddum tálknabörðum. Mun erfiðara getur reynst að þekkja strokulaxa sem sloppið hafa snemma í eldisferlinum, þar sem hefðbundin útlitseinkenni eru ekki eins áberandi. Sjónrænt mat er ekki nægjanlega öruggt til að fjarlægja fiska sem eiga uppruna sinn úr sjókvíaeldi. Erfðagreiningar eru því nauðsynlegar til að tryggja að fiskur sem nýttur er til fiskræktar sé villtur. Matís hefur stundað erfðagreiningar á laxi um árabil, bæði til grunnrannsókna en einnig til að rekja uppruna strokulaxa sem veiðast í ám.