„Í raun má segja að fiskveiðistjórnunarkerfið hafi verið eitt stærsta skref nýsköpunar í íslenskum sjávarútvegi síðustu 40 árin. Kerfið leiddi til þess að við fórum að stunda sjálfbærar veiðar og kom í veg fyrir ofveiði. Ef við hefðum ekki gert þetta, tel ég líklegt að við værum sem þjóð ekki á þeim stað sem við erum á í dag“, sagði Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Brim, í erindi sínu á ráðstefnu um framtíð íslensks sjávarútvegs og fiskeldis á dögunum.
Gréta María fjallaði um mikilvægi þess að taka þátt í nýsköpun og ýta undir framþróun í greininni. Fyrirtæki eigi að horfa til þess að með nýsköpun verður til vöruþróun og verðmætasköpun. Mikilvægt sé að taka þátt í rannsóknarverkefnum, þau búi til nýja tækni, og einnig sé mikilvægt að kaupa vörur og þjónustu af frumkvöðlum.
„Ásamt þessu þurfum við líka að ræða þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir í rekstrinum. Það er ábyggilega einhver þarna úti sem er að þróa eða hefur þróað lausn til að takast á við þær áskoranir. Vandamálin eiga því ekkert að vera eitthvert leyndarmál, því ef við segjum frá og leggjumst á eitt getum við pottþétt leyst þau,“ benti hún á og segir í frétt Brims af ráðstefnunni.
Grettistaki lyft
Gréta nefndi dæmi um það sem Brim hefur verið að gera í nýsköpun, þar á meðal það grettistak sem lyft hefur verið í slysavörnum og öryggi, bæði til sjós og lands.
Hún fór yfir af hverju nýsköpun er mikilvægt verkfæri fyrirtækja í dag.
„Ef við ætlum að halda forystuhlutverki okkar í sjávarútvegi á heimsvísu verðum við að vera með betri afurðir en aðrir. Við erum lítið samfélag en í því liggja tækifærin; skjót viðbrögð, að vera á undan með nýjungar. Með stöðugri þróun tryggjum við að sjávarútvegur verði áfram sá burðarstólpi í íslensku samfélagi sem hann hefur verið og sköpum um leið verðmæti til framtíðar.“