Björn Sigurður Lárusson, sveitarstjóri Langanesbyggðar, segir mikla óánægju innan sveitarstjórnarinnar vegna tregðu Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar til að gefa svör vegna mikillar mengunar við Heiðarfjall.

Eins og fram kom í Fiskifréttum 17. apríl síðastliðinn og á vef blaðsins degi síðar er staðfest með nýrri rannsókn norsku stofnunarinnar Norwegian Geotechnical Institute að veruleg og hættuleg mengun er við Heiðarfjall. Hún stafar frá stórri ratsjárstöð sem Bandaríkjamenn starfræktu á fjallinu fram á áttunda áratuginn.

Ráðlagt hefur verið að borða ekki fisk sem veiðist á mengunarsvæðinu og mælt er gegn því að beita sauðfé á landið. Miðað við stöðuna væri útilokað að hefja fiskeldi á svæðinu að nýju líkt því sem starfrækt var þar áður fyrr.

Hætta fyrir fólk og dýr

Mengunin á Heiðarfjall stafar frá aflagðri ratsjárstöð.
Mengunin á Heiðarfjall stafar frá aflagðri ratsjárstöð.

Í bréfi frá héraðsdýralækni Norðausturumdæmis til Langanesbyggðar segir að eiturefni séu í það miklu magni á svæðinu að þau skapi heilsufarshættu fyrir fólk og dýr. „Styrkur mengunar var það mikill í vatns- og jarðvegssýnum að þörf er á frekari rannsóknum á þeim dýraafurðum sem eru á svæðinu og notaðar eru til neyslu,“ segir í bréfinu.

Sveitarstjórn Langanesbyggðar er ósátt við að ekki hafi borist svör frá Umhverfisstofnun og Matvælastofnun við fyrirspurnum sveitarstjórans.

Upplýsi um aðgerðir sem gripið verði til

Björn Sigurður Lárusson.
Björn Sigurður Lárusson.

„Sérstaklega var beðið um upplýsingar um hugsanlegar mótvægisaðgerðir, frekari rannsóknir og leiðbeiningar til landeigenda á hverju þeir mega eiga von varðandi sölu afurða, veiði í vötnum og og svo framvegis,“ bókaði sveitarstjórnin á síðasta fundi.

Björn sveitarstjóri segir slíkar stofnanir gjarnan senda sveitarfélögum erindi og óska eftir skjótum svörum en þær sjálfar svari svo ekki fyrr en eftir dúk og disk.

„Við viljum vita til hvaða mótvægisaðgerða þessar stofnanir hyggjast grípa gagnvart þessari mengun, hvort frekari rannsóknir séu fyrirhugaðar á svæðinu og hvenær megi búast við að farið verði í aðgerðir til að hreinsa það,“ segir Björn sveitarstjóri nánar um þau atriði sem heimamenn vilji fá skýr svör við.