Langa ehf. í Vestmannaeyjum, sem er einn stærsti framleiðandi þurrkaðs fisks inn á Nígeríumarkað, opnar í næsta mánuði kollagenverksmiðju og hyggst framleiða þar kollagen úr fiskroði. Verksmiðjan verður í húsi sem Langa ehf. lét byggja árið 2015 skammt norðan við Skipalyftuna á Kleifum.

„Ég held að það sé alveg raunhæft að ætla að við hefjum starfsemi í ágúst og erum því að nálgast endalínuna í þessu verkefni,“ segir Hallgrímur Steinsson, framkvæmdastjóri Löngu.

Verkefnið hefur verið í undirbúningi í tvö ár og segir Hallgrímur að hvatinn að því fyrir Löngu ehf. að leita nýrra tækifæra ekki síst vera þann óstöðugleika sem ríkir með sölu á þurrkuðum fiskafurðum. Í verksmiðjunni stendur einnig til að framleiða verðmætar afurðir úr fituríkum fiskafurðum með ensímtækni. Hallgrímur segir að þetta sé sú leið sem farin verði til að treysta rekstur fyrirtækisins.

Slagur um roðið?

Marine Collagen í Grindavík hefur selt gelatín og kollagen sem unnið er úr fiskroði frá því seint á árinu 2020. Þar er framleitt úr 3-4 þúsundum tonna af roði á ári. Fyrirtækið kaupir um 40-50% af öllu þorskroði sem fellur til í landinu. Marine Collagen er í jafnri eigu útgerðarfélaganna Þorbjarnar og Vísis í Grindavík, Brims og Samherja. Hallgrímur segir að stefnt sé að vinnslu kollagens úr 100-150 tonnum af roði á mánuði, eða tæplega 1.200-1.800 tonnum á ári. Roðið muni koma frá fiskvinnslum í Eyjum en einnig ofan af landi.

„Við horfum líka til þess að vinna feitar afurðir, sem hafa almennt verið til vandræða fyrir vinnsluna hérna, brjóta þær niður í olíu og próteinhydrolysöt með ensímum. Með þessari aðferð er hægt að brjóta niður nánast hvaða fiskilífmassa sem er. En auðvitað er kollagen mjög áhugaverð vara og markaður þá vöru er mjög góður,“ segir Hallgrímur.