„Við urðum ekki sjóveikir og við reyndumst engar fiskifælur,“ skrifar Smári Geirsson í Neskaupstað í skemmtilegum pistli á heimasíðu Síldarvinnslunnar er hann segir frá því þegar tveir landkrabbar, hann og Guðmundur Bjarnason, fóru í makríltúr með Berki NK.

Smári lýsir veiðiferðinni og nefnir þau mið sem veitt var á. „Örvæntingin hvarf hins vegar eins og dögg fyrir sólu þegar togað var yfir Örvæntingarhorn því þá lóðaði á mikinn fisk og innkoman í trollið var í góðu lagi,“ skrifar Smári meðal annars.

Börkur veiddi 490 tonn í þessum túr. „Það var í reyndinni ævintýri að fá að upplifa veiðiferð sem þessa. Þarna skynjuðum við hve tæknin spilar stórt hlutverk í veiðunum og hve skipulagið um borð er gott og áhöfnin samstillt og vinnusöm. Þá skemmdi skipið sjálft ekki fyrir en Börkur er sannkallað glæsifley sem fer vel með afla og mannskap,“ segir Smári í lok pistilsins.

Sjá pistilinn í heild HÉR .