Tillaga að breyttu aðalskipulagi fyrir fiskeldi í Viðlagafjöru i Vestmannaeyjum er nú í kynningu og frestur til þess að senda inn athugasemdir rennur út um næstu mánaðamót. Jafnframt hefur umhverfismatsskýrsla verið kynnt og óskað eftir athugasemdum.
„Þetta er búið að vera í burðarliðnum í á fjórða ár frá því fyrstu hugmyndir fóru af stað,“ segir Lárus Sigurður Ásgeirsson, stjórnarformaður og stofnandi félagsins Iceland Land Farmed Salmon (ILFS). Félagið er langt á veg komið með undirbúning að bæði fiskeldi í Viðlagafjöru og seiðaeldisstöð við Friðarhöfn.
Seiðaeldisstöðin er ekki umhverfismatsskyld, þannig framkvæmdir þar eru þegar byrjaðar. Þar er verið að reisa 6.500 fermetra hús fyrir 4 milljóna seiða framleiðslu en í Viðlagafjöru er stefnt á 10.500 tonna laxeldi.
„Það var hafist handa við þetta allt saman í fyrra og nú erum við komnir á þann stað að breytt aðalskipulag hefur verið kynnt og auglýst og vonast til þess að það verði klárað í lok ársins eða í byrjun næsta árs. Síðan gerum við ráð fyrir að umhverfismatsskýrslan verði tilbúin í lok þessa árs, og þá getum við sótt um nauðsynleg framkvæmdaleyfi og annað slíkt.“
Fyrsta slátrun 2025
Reiknað er með að framkvæmdir í Viðlagafjöru hefjist í byrjun næsta árs.
„Ef allt gengur eftir þá tökum við inn hrogn seinni part sumars næsta ár sem þýðir að seiði fara í þessa tanka sem við ætlum að byggja niðri í Viðlagafjöru um mitt ár 2024.“
Fyrsta slátrun yrði þá rúmu ári seinna, eða seinni part árs 2025. Lagt verður upp með 10 þúsund tonna framleiðslu á laxi, og byrjað á 3.500 tonnum árið 2024, annað eins ári seinna og árið þar á eftir verður framleiðslan komin yfir 10.000 tonn. Þetta er þó aðeins fyrri áfanginn því stöðin er með landrými og nægan sjó til að tvöfalda afköstin síðar meir.
Lárus segir þetta verkefni til þessa hafa verið fjármagnað af núverandi hluthöfum.
„Bæði seiðaeldisstöðin í Friðarhöfn og undirbúningur í Viðlagafjöru er fullfjármagnað, en við gerum ráð fyrir að fara í hlutafjárútboð í lok þessa árs eða í byrjun næsta árs og bjóða þá sérstaklega Vestmannaeyinga að taka þátt í þessu verkefni.“
Kjörskilyrði
„Vestmannaeyjar eru kjörstaður fyrir svona,“ segir Lárus. „Viðlagafjara er í skjóli við hafölduna og þetta er fjara þannig að það er mjög auðvelt að byggja upp á með lágmarks jarðraski. Við erum að nýta efni sem er þarna fyrir. Við höfum aðgengi að hlýjum sjó undir eynni. Þar munum við geta gengið að 10-12 gráða heitum sjó, sem eru kjörskilyrði fyrir fiskeldi. Síðan eru allir innviðir til staðar í Vestmannaeyjum. Einnig mannauður og þekking á afurðum, geymslu og sölu og markaðssetningu. Það er líka auðvelt að laða fólk til Vestmannaeyja. Þetta er kraftmikið byggðarlag og gott að búa þarna, þannig að við erum mjög vel í sveit sett.“
Stefnt er að því að sigla með afurðirnar beint frá Vestmannaeyjum bæði til Evrópu og vestur um haf.
„Þeir sem hófu þetta verkefni og það sem heillaði mig var fyrst og fremst þessi nálgun að byggja þetta upp í Vestmannaeyjum,“ segir Lárus. „Að styrkja innviði og styrkja samfélagið, skjóta fleiri stoðum undir atvinnulífið og skapa meiri hagsæld. Enda er mikill stuðningur við þetta verkefni í Vestmannaeyjum og við höfum átt mjög gott samstarf við Vestmannaeyjabæ og skipulagsyfirvöld.“
Auk Lárusar, sem er stjórnarformaður ILFS, sitja þeir Daði Pálsson og Hallgrímur Steinsson í stjórn félagsins, en allir þrír eru þeir stofnendur. Sjálfur hefur Lárus komið víða við. Hann starfaði meðal annars í 25 ár hjá Marel í ýmsum stjórnunarstöðum, en undanfarin ár hefur hann verið framkvæmdastjóri í fiskeldi og kjúklingavinnslu í Mið-Austurlöndum.
Allt stefnir þannig í að Vestmannaeyjar verði innan fárra ára orðnar öflugar í laxeldi. Í síðasta mánuði greindu Fiskifréttir frá áformum um allt að 20 þúsund tonna úthafseldi og undirbúningur að landeldi upp á önnur 20 þúsund tonn er vel á veg kominn. Samtals gera þetta 40 þúsund tonn, sem er nærri mikið og allt sjókvíaeldið á Vestfjörðum og Austfjörðum samanlagt.