Landaður afli á Akranesi fyrstu sex mánuði ársins var rúm 8.600 tonn sem er 87% aukning frá sama tímabili í fyrra þegar landað var rúmum 1.100 tonnum. Skýringin á þessari miklu aukningu eru loðnulandanir uppsjávarskipa á síðustu loðnuvertíð. Einar Guðmundsson, löggiltur vigtarmaður á hafnarvoginni á Akranesi, segir að mikið hafi munað um þessar landanir í umsvifum og tekjum hafnarinnar sem er hluti af Faxaflóahöfnum.

Á loðnuvertíðinni var landað um 7.550 tonnum af loðnu á Akranesi, samkvæmt tölum Fiskistofu, en annar afli fyrstu sex mánuðina nam rétt rúmum eitt þúsund tonnum sem var svipað og á sama tímabili 2020. Hvað varðar landanir á bolfiski lönduðu bátar á grásleppunetum 276 tonnum fyrstu sex mánuðina á móti 90 tonnum á sama tíma í fyrra, handfærabátar um 223 tonnum, bátar á þorskanetum 156 tonnum og línubátar 358 tonnum. Þá var 6,1 tonni af grjótkrabba landað á móti 0,4 tonnum á sama tíma í fyrra, 54,5 tonnum af sæbjúgum og 9,4 tonnum af krækling.

„Það munar gríðarlega miklu fyrir höfnina að fá svona loðnuvertíð. En reyndar er þessi löndunartala á loðnu dálítið afstæð því stór hluti loðnuhrognanna var fluttur héðan landleiðina til Vopnafjarðar og frystur þar. En eftir því sem mér skilst ætlar Brim ekki að standa þannig að málum aftur. Það þýðir þá væntanlega að afkastagetan í frystingu verði aukin hérna á Akranesi,“ segir Einar.

Nú er hún Snorrabúð stekkur

Einar hefur starfað á hafnarvoginni síðustu tvo áratugi og var þar áður á sjó á bátum frá Akranesi. Hann hefur því séð Akranes breytast úr mikilli fiskiskipahöfn á árum áður í afslappaða smábátahöfn. Hann segir að AK-skráð skip, önnur en smábátar, komi aldrei inn til löndunar á Akranesi, nema núna á loðnuvertíðinni. Bolfiskvinnsla er aflögð á staðnum en Brim hefur fryst þar loðnuhrogn og brætt loðnu. Vignir G. Jónsson ehf., sem nú er hluti af Brimi, stundar hrognavinnslu, og Norðanfiskur er í áframvinnslu sjávarafurða í stóreldhús- og neytendapakkningar.

„Ekki einungis togararnir eru farnir héðan heldur líka vertíðarbátarnir, bátar allt að 300 tonnum. Einu bátarnir sem hér landa eru tveir 20 tonna bátar og svo enn minni bátar. Það voru 28 bátar hérna á strandveiðum þegar mest var, þar af nokkrir bátar frá Þorlákshöfn og Hafnarfirði. Þeir hafa landað á fiskmarkaðnum á Akranesi sem rekinn er í samstarfi við Fiskmarkað Snæfellsbæjar. Í maí og júní var afli strandveiðibátanna 146 tonn í 271 róðri sem gerir nálægt 520 kg meðalafla á bát í róðri. Í júnílok í fyrra höfðu höfðu 33 strandveiðibátar landað hérna 188 tonni í 341 róðri.“