Að kröfu stéttarfélags starfsmanna í norskum matvælaiðnaði (Norsk Nærings- og Nytelsesmiddelarbeiderforbund) hefur launanefnd ákveðið að lágmarkslaun gildi fyrir alla þá sem starfa í fiskiðnaði.
Þetta kemur fram á vef Kystmagasinet. Þar segir að stéttarfélagið hafi fengið það í gegn á síðasta ári að samningar um lágmarkslaun giltu um alla starfsmenn í fiskiðnaði. Þá voru dæmi þess að einstaka fiskverkamenn þyrftu að sætta sig við 60 krónur norskar á tímann (um 1.030 íslenskar krónur).
Með því að allir starfsmenn njóti lágmarkslauna hefur verið tryggt að byrjendalaun fiskverkafólks verði 167,7 norskar krónur á tímann (um 2.875 íslenskar krónur) og fyrir fólk með fagþekkingu 177,7 norskar krónur á tímann (um 3.045 íslenskar krónur).