,,Fjölmiðlar hafa síðustu daga greint frá því að ríkisstjórnin ætli sér að lækka veiðigjaldið svo ljúka megi þingstörfum. Þegar betur er að gáð er umrædd lækkun alls engin lækkun, heldur um það bil þreföldun veiðigjalda miðað við nýjustu hugmyndir,“ segir á vef LÍÚ.

Og áfram segir: ,,Fjölmiðlar hafa gagnrýnislaust tekið upp þessa orðanotkun stjórnarliða. Þessu mætti líkja við ef talað yrði um hækkun á framlögum til Landsspítala Háskólasjúkrahúss ef hætti væri við niðurskurð upp á milljarð en þess í stað ákveðið að skera niður um hálfan milljarð.“

LÍÚ segir að staðreyndin sé sú að útgerðin greiði í dag um 4,5 milljarða króna í veiðigjald, sem nemi um fjórðungi af hagnaði útgerðarinnar, auk tekjuskatts. ,,Hugmyndir um að leggja 13-15 milljarða veiðigjald á veiðar og vinnslu er því augljóslega ekki „lækkun" veiðigjalds heldur margföldun þess,“ segir á vef LÍÚ.