Fulltrúar níu eyríkja í Kyrrahafi eru staddir hér á landi í þeim tilgangi að fá innsýn í árangur Íslands við uppbyggingu á sjálfbærum sjávarútvegi. Ferðinni, sem Alþjóðabankinn hefur milligöngu um í samstarfi við utanríkisráðuneytið og Sjávarútvegsskóla GRÓ, er ætlað að gefa sérfræðingum í sjávarútvegi á Kyrrahafseyjum tækifæri til að læra af þjóð sem er „leiðandi á heimsvísu í sjálfbærum fiskveiðum“, eins og segir í frétt Alþjóðabankans.

Í hópnum eru sérfræðingar, leiðtogar og höfðingjar frá Kíribatí, Marshalleyjum, Palá, Samóaeyjum, Salómonseyjum, Tonga, Túvalú og Vanúatú. Þeir kynna sér á næstu tíu dögum nútímalegan sjálfbæran sjávarútveg á Íslandi, tækni og þróun blómlegs einkageira, sem sögð er hvetjandi fyrirmynd fyrir Kyrrahafseyjar.

Tækifæri verði nýtt

Xavier Vincent, helsti fiskveiðisérfræðingur Alþjóðabankans í Kyrrahafi, bendir í fréttatilkynningu bankans á möguleika Kyrrahafseyríkja til að efla sjávarútveg enn frekar, sérstaklega með vinnslu á landi og nýtingu jarðhitaauðlinda. Heimsóknin gefi fyrirheit um að þessi tækifæri verði nýtt og að Kyrrahafsþjóðirnar geti náð meiri verðmætum úr fiskveiðum sínum, líkt og Ísland.

Gestirnir ásamt íslenskum fulltrúum ´afundi í Hafró í gær.
Gestirnir ásamt íslenskum fulltrúum ´afundi í Hafró í gær.

Sjávarútvegsskóli GRÓ skipuleggur dagskrá heimsóknarinnar, meðal annars í samvinnu við Háskólann á Akureyri. Auk þess að heimsækja íslenskar stofnanir og ráðuneyti fara gestirnir í nokkur íslensk fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu, Grindavík, Akureyri, Dalvík, Hvammstanga, Hauganesi og Siglufirði, allt frá litlum fjölskyldumfyrirtækjum til tækni- og nýsköpunarfyrirtækja.