Smíði á Sigurbjörgu, nýju ísfisk- og humarveiðiskipi Ramma, gengur eins og í sögu í hjá Celiktrans skipasmíðastöðinni í Tyrklandi. Fulltrúar Nautic, sem hannar skipið og Kælismiðjunnar Frosts, sem framleiðir kælibúnað í skipið eru með sameiginlegan bás á sjávarútvegssýningunni í Barcelona þar sem þeir kynna skipið og starfsemi fyrirtækjanna. Áætlað er að sjósetja fleyið í október á þessu ári og að það verði afhent í lok árs.
Hrafnkell Tulinius, framkvæmdastjóri Nautic, segir að fyrsta stálið í skipið hafi verið skorið í apríl 2022 og það verði að öllum líkindum sjósett 20. maí næstkomandi.
„Þá á eftir að setja upp allan vinnslubúnað og annan tæknibúnað,“ segir Hrafnkell. Allur vinnslubúnaðurinn kemur frá Klaka í Kópavogi sem og sjálfvirkt lestarkerfi með fjórum lyftum. Kælibúnaðurinn kemur sem fyrr segir frá Kælismiðjunni Frost á Akureyri og vindubúnaður frá Ibersisa. Áformað er að forprófun á skipinu verði í október með afhendingu fyrir áramót.
Allt að þrjú troll
Sigurbjörg er 48 metra langur togari, 14 metra breiður og getur verið með allt að þremur trollum í einu að veiðum, þ.e.a.s. á humarveiðum, þegar þær hefjast á ný. Skrúfa skipsins er 4,2 metrar í þvermáli með skrúfuhring. Hrafnkell segir mikinn togkraft í þessu skipi og stór skrúfa og hönnun skrokkksins leiðir til minni olíunotkunar. Sama skrokklag er á skipinu og HB Granda skipunum sem Nautic hannaði upp úr 2015 með svokölluðu Enduro Bow stefni. Gert er ráð fyrir að ganghraðinn verði nálægt 14 mílur á um 80% vélarálagi.
„Hönnunin á stefninu á Sigurbjörgu er betrumbætt útfærsla af systrunum, Akurey, Engey og Viðey annars vegar og Samherjaskipunum hins vegar.“