Þóroddur Bjarnason stjórnarformaður Byggðastofnunar og prófessor við Háskólann á Akureyri hefur varpað fram þeirri hugmynd að í stað núgildandi byggðakvóta, línuívilnunar og strandveiðikvóta verði þessum aflaheimildum breytt í varanlegan kvóta sem bundinn verði vinnusóknarsvæðum en ekki einstökum sjávarplássum.
Byggðastofnun hefur skilgreint 30 vinnusóknarsvæði á landinu sem eru ekki stærri en svo að fólk innan svæðanna getur hæglega ekið til og frá vinnu daglega.
Að sögn Þóroddar væri einfaldast að kvótinn gengi kaupum og sölum eins og í stóra kerfinu en það væri vinnsluskylda á honum innan svæðisins. „Í stað þess að einblína á það að fiskvinnsla verði að vera í hverju einasta þorpi myndi kvótinn rata á þá staði innan vinnusóknarsvæðisins sem hagkvæmast þætti að vinna hann. Þar með fengist hagræðing innan svæðisins. Kvótinn, sem yrði varanlegur, yrði seldur á markaði og þannig leita til þeirra sem sæju tækifæri í því að vera með vinnslu á smærri stöðum,“ segir Þóroddur.
Sjá viðtal við Þórodd í nýjustu Fiskifréttum.