Íslendingum stendur til boða að veiða 9.141 tonn af þorski í rússneski lögsögu á næsta ári. Þar af gefst þeim kostur á að leigja til sín 3.428 tonn af þorskkvóta.  Meðaflaheimild í ýsu verður 10%, og nemur 914 tonnum en meðaflaheimild í öðrum tegundum nemur 20% aflaheimilda í þorski.

Þetta er í samræmi við ákvæði Smugusamningsins sem til umræðu var á fundi samstarfsnefndar Íslands og Rússlands sem haldinn var í Reykjavík í gær og í dag. Á fundinum var fjallað um samstarf á sviði veiðieftirlits, hafrannsókna og veiðistjórnunar sameiginlegra stofna á Norður-Atlantshafi, m.a. úthafskarfa, kolmunna, norsk-íslenskrar síldar og makríls.

Eins og kunnugt er af nýlegum fréttum hafa rússnesk stjórnvöld sagst íhuga að setja innflutningsbann á makrílafurðir frá Íslandi ef íslensk stjórnvöld haldi til streitu að banna rússneskum skipum að landa úthafskarfa hérlendis meðan Rússland er ekki aðili að samkomulagi strandríkja um kvótasetningu á úthafskarfa. Í fréttatilkynningu  frá sjávarútvegsráðuneytinu eftir fundinn með rússnesku viðræðunefndinni í dag er ekki minnst á þetta atriði. Á hinn bóginn segir:

,,Á fundinum var m.a. rætt um mikilvægi þess að Rússar verði aðilar að samkomulagi um stjórnun úthafskarfaveiða á Reykjaneshrygg. Ísland áréttaði vonbrigði sín með afstöðu Rússlands til ráðgjafar Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) um stofnstærð og stofngerð og voru rússnesk stjórnvöld hvött til að vinna náið með ICES með því að leggja fram tiltæk gögn sem nauðsynleg þykja til rannsókna á karfastofnunum. Af hálfu Íslands var lögð áhersla á að veiðistjórnun karfastofnanna á Reykjaneshrygg byggi á þeirri vísindalegu þekkingu og ráðgjöf sem fyrir liggur.“

Sjá fréttatilkynningu atvinnuvegaráðuneytisins, HÉR