Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur lagt til að þorskkvótinn í Norðursjó verði skertur um 20% á næsta ári miðað við aflaheimildir yfirstandandi árs.
Richard Lochhead sjávarútvegsráðherra Skotlands metur það svo að slík kvótaskerðing sé ávísun á gríðarlegt brottkast. Þorskgengd fari vaxandi og sjómenn muni ekki komast hjá því að veiða þorsk sem þeir hafi ekki kvóta fyrir. Þeir verði því neyddir til þess að fleygja þorskinum í sjóinn þvert á vilja sinn. Kvótaskerðingin muni skilja eftir sig slóð brottkasts þvers og kruss í Norðursjónum.
ESB tekur ákvörðun um kvóta næsta árs á fundi skömmu fyrir jól.