Þótt grásleppuvertíð sumarsins sé vel á veg komin bíður frumvarp Svandísar Svavarsdóttur um kvótasetningu veiðanna enn afgreiðslu á Alþingi. Frestur til þess að skila inn umsögnum rann út í síðustu viku.

Fiskistofa bendir meðal annars á að efni frumvarpsins feli í sér ný verkefni fyrir Fiskistofu, sérstaklega hvað varðar eftirlit með því að aflaheimildir flytjist ekki milli svæða.

„Til að kom á slíku eftirliti þarf að uppfæra tölvukerfi og setja girðingar á heimildirnar. Fiskistofa hefur ekki forræði yfir því hvar skip eru skráð og kallar þetta því einnig á aukið samstarf milli stofnanna. Þessi framkvæmd er frábrugðin annarri framkvæmd aflamarksstjórnar og mun fela í sér ný verkefni sem þarf að fjármagna. Þá er einnig frumvarpinu lagt til að 5,3% aflamagns í grásleppu verði nýtt sem aflamark fyrir nýliða. Mikilvægt er að reglur um slíka framkvæmd verði mjög skýrar, einfaldar og fyrirsjáanlegar í framkvæmd og mun þetta einnig vera nýtt verkefni sem kallar aukinn mannafla og fjármagn hjá Fiskistofu.“

Torveldar samanburð

Hafrannsóknastofnun gerir athugasemd við grásleppubátum verði ekki áfram gert skylt „að tilgreina fjölda hrognkelsaneta og teinalengd nets“ svo hægt verði að meta sóknina og ákvarða út frá því afla á sóknareiningu með sambærilegum hætti og áður fyrr.

Einnig segir Hafrannsóknastofnun hlutdeildarsetningu á grásleppuveiðiheimildum vissulega skapa meira svigrúm fyrir stjórnvöld til að setja inn t.d. svæðalokanir til að draga úr meðafla. Þá þurfi hins vegar að tryggja að hægt sé að gera samanburð við fyrri ár á þessum þáttum og þá er mikilvægt að allar skráningar séu gerðar eins og áður.

LS á móti

Landssamband smábátaeigenda (LS) er sem fyrr alfarið á móti kvótasetningu grásleppuveiða. LS segist að vel athuguðu máli hafa „komist að þeirri niðurstöðu að veiðistýring á grásleppu með aflamarki svarar engu af því sem ekki er hægt að uppfylla í núverandi veiðikerfi. Áratuga reynsla er af núverandi stjórnun veiðanna og er því fátt sem getur komið á óvart.“

LS segir dæmin sanna að veiðarnar myndu smám saman færast yfir á hendur örfárra útgerða sem myndu ráða yfir heimildunum. Tveggja prósenta hámark „myndi þar litlu breyta, þar sem túlkun á skyldleika gefur fjölskyldumeðlimum kost á að stofna hver sitt félag.“

Frumvarpið breyti heldur engu um fyrirsjáanleika við veiðarnar, enda geti ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um leyfilegar heildarafla ekki legið fyrr fyrr en stuttu áður en veiðitímabil hefst ár hvert.

Ákveðinn ómöguleiki

Grásleppusjómenn eru hins vegar margir fylgjandi kvótasetningu. Einn þeirra er Axel Helgason, fyrrverandi formaður Landssambands smábátaeigenda. Hann segir það ekki standast skoðun að líkja saman samþjöppun aflaheimilda í krókaaflamarki og grásleppu.

„Grásleppan veiðist í mjög misjöfnu magni yfir mjög stutt tímabil sem er misstutt eftir svæðum. Vegna þessa er ákveðinn ómöguleiki fólgin í mikilli samþjöppun heimilda sem sést ef skoðaðar eru aflatölur síðastliðinna þriggja áratuga.“

Þá bendir hann á að á tímabilinu 2009-2017 hafi nánast enginn þeirra nýliða sem komu inn í útgerð á strandveiðum nýtt sér það tækifæri að hefja einnig grásleppuveiðar. Neikvæð áhrif á hinar dreifðu byggðir telur hann ekki verða þau sem sumir eru að spá fyrir um.

„Með því að stýra veiðunum með hlutdeild, geta útgerðir skipulagt sig, skapað traustari atvinnu og rekstrargrundvöll með þeirri hagkvæmni sem veiðstýring með úthlutun aflamarks skapar.“

Vilji flestra

Í umsögn frá grásleppuútgerðum og vinnslu á Húsavík segir að mikill meirihluti, eða tæp 80% allra grásleppuútgerða og vinnslna hringinn í kring um landið hafi „ítrekað lýst yfir vilja sínum undanfarin ár til þess að fá grásleppuna undir aflamarksstýringu“.

Bæjarstjórn Stykkishólms segist ítrekað hafa bent á nauðsyn þess að breyta fyrirkomulagi hrognkelsaveiða og bendir á að Stykkishólmshöfn hafi um árabil verið einn helsti löndunarstaður grásleppu á landinu.

Þannig hafi um 30% heildarafla grásleppu árið 2019 verið veiddur við innanverðan Breiðafjörð og 22% af öllum grásleppuafla landsins hafi verið landað í Stykkishólmi.

„Á Breiðafirði eru jafnframt hrognkelsavinnsla starfandi, þ.m.t. í Stykkishólmi, sem reiða sig á þann afla sem þar veiðist. Samtals má áætla að um 100 störf tengjast umræddri atvinnugrein í Stykkishólmi í kringum hverja vertíð,” segir í umsögn bæjarstjórnar Stykkishólms.

Tvö afgreidd

Frumvarp Svandísar Svavarsdóttur um kvótasetningu grásleppu er aðeins eitt af nokkrum frumvörpum hennar er snúa að smábátum og sjávarútvegi. Tvö þeirra, um orkuskipti og rafvæðingu smábáta, urðu að lögum í síðustu viku.