Grænland og Evrópusambandið hafa náð samkomulagi um endurnýjun fiskveiðisamnings ríkjanna fyrir árin 2013-1015.  Samningurinn felur í sér hærri greiðslu en áður fyrir minni kvóta, að því er fram kemur á vef Grænlandspóstsins.

ESB greiðir 19,7 milljónir evra, jafnvirði 3,2 milljarða íslenskra króna, á ári fyrir að fá að veiða í lögsögu Grænlands á tímabilinu 2013-2015. Grænlendingar hafa áfram tollfrjálsan aðgang að ESB með grænlenskar sjávarafurðir.

Samkvæmt samningnum minnkar þorskkvóti ESB úr 3.500 tonnum í 2.200 tonn. Úthafskarfakvótinn minnkar úr 8.000 tonnum í 3.000 tonn, en hins vegar fær sambandið 2.000 tonna kvóta af botnlægum karfa við Grænland en hafði engan fyrir. Grálúðukvótinn minnkar úr 10.000 tonnum í 6.800 tonn og lúðukvótinn minnkar úr 1200 tonnum í 200 tonn.